28. september 2011

Gjaldskrá vegna stöðvunarbrota í Reykjavík

Hinn 14. september 2011 lauk umboðsmaður Alþingis athugun á lögmæti ákvæða 1.-3. gr. gjaldskrár vegna stöðvunarbrota í Reykjavík. 

Tildrög athugunar umboðsmanns á þessu atriði var kvörtun einstaklings yfir innheimtu Bílastæðasjóðs Reykjavíkur á gjaldi fyrir stöðubrot með álagi og málsmeðferð sjóðsins við álagningu gjaldsins. Við athugun málsins vakti það athygli umboðsmanns að í 1.-3. gr. gjaldskrár vegna stöðvunarbrota í Reykjavíkurborg er kveðið á um að veittur skuli 1.100 kr. afsláttur af þartilgreindum gjöldum „ef greitt er án fyrirvara og andmæla í bankastofnun eða heimabanka innan þriggja virkra daga frá álagningu gjaldsins“.

Athugun á máli viðkomandi einstaklings lauk en umboðsmaður ákvað að leita eftir afstöðu stjórnvalda til þess hvort og þá hvernig þetta fyrirkomulag samrýmdist 13. gr. stjórnsýslulaga og þeirri meginreglu að ákvarðanir og athafnir stjórnvalda verði ávallt að byggjast á málefnalegum sjónarmiðum. Þar kom þrennt til. Í fyrsta lagi verður að gera kröfu um vandaða málsmeðferð hjá Bílastæðasjóði Reykjavíkur þar sem ákvörðun um álagningu gjalds fyrir stöðubrot verður ekki borin undir æðra stjórnvald. Í öðru lagi er almennt óþarft að gera fyrirvara við greiðslu kröfu frá stjórnvaldi af þeirri ástæðu að lögum samkvæmt skal stjórnvald, sem innheimtir skatta eða gjöld, endurgreiða fé sem ofgreitt reynist ásamt vöxtum. Geri málsaðili engu síður slíkan fyrirvara verður almennt að leggja til grundvallar að slíkt verði honum ekki til réttarskerðingar. Í þriðja lagi er 13. gr. stjórnsýslulaga m.a. ætlað að tryggja rétt borgarans til að koma sjónarmiðum sínum og skýringum á framfæri áður en ákvörðun er tekin í máli hans og felur þannig í sér réttaröryggisreglu.

Þar sem umrædd reglugerð var staðfest af samgönguráðherra beindi umboðsmaður fyrirspurnum sínum vegna málsins fyrst og fremst að innanríkisráðuneytinu en Reykjavíkurborg var einnig ritað vegna málsins.

Í svarbréfi innanríkisráðuneytisins til umboðsmanns, dags. 15. júlí 2011, kom fram að ráðuneytið teldi rétt að taka umrædd reglugerðarákvæði til endurskoðunar haustið 2011. Þá bárust þær upplýsingar frá borgarlögmanni að það væri afstaða Reykjavíkurborgar að rétt væri að breyta gjaldskránni. Í ljósi þessara viðbragða taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að aðhafast frekar í málinu á grundvelli 5. gr. laga nr. 85/1997.