30. september 2011

Umræðufundur mannréttindastofnana Evrópuráðsríkja

Dagana 21.-22. september 2011 funduðu mannréttindastofnanir Evrópuráðsríkja í Madrid á Spáni. Evrópuráðið bauð umboðsmanni Alþingis að senda fulltrúa á fundinn og sótti Erna Guðrún Sigurðardóttir lögfræðingur hann fyrir hönd umboðsmanns.

Á fundinum var rætt um möguleika á aukinni samvinnu milli stofnana í tengslum við svokallað Interlaken-ferli sem ætlað er að styrkja stöðu mannréttindadómstóls Evrópu til að takast á við verulega aukinn málafjölda og þar með stuðla að skilvirkni í framkvæmd mannréttindasáttmála Evrópu.

Meðal þess sem rætt var á fundinum var fræðsluhlutverk mannréttindastofnana, einkum gagnvart þeim sem hafa hug á að leggja kæru fyrir mannréttindadómstólinn, aðkoma þeirra að fullnustu á dómum mannréttindadómstólsins, hlutverk þeirra við að stuðla að samræmi innlendrar löggjafar og stjórnsýslu- og réttarframkvæmdar við dómaframkvæmd mannréttindadómstólsins og efling mannréttindafræðslu í forvarnarskyni.