04. október 2011

Meinbugir á lögum um Íslandsstofu

Hlutverk umboðsmanns Alþingis, lögum samkvæmt, er að hafa eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga.

Telji hann athöfn stjórnvalds brjóta í bága við lög eða vandaða stjórnsýsluhætti getur hann látið í ljós álit sitt á því og beint tilmælum um úrbætur til hlutaðeigandi stjórnvalds. Það er hins vegar almennt ekki á verksviði umboðsmanns að taka afstöðu til þess hvernig til hefur tekist með löggjöf sem Alþingi hefur sett, s.s. hvort tiltekið lagaákvæði standist stjórnarskrá. Í okkar réttarkerfi er gert ráð fyrir því að það verkefni falli dómstólum í skaut. Með 11. gr. laga nr. 85/1997 er umboðsmanni Alþingis þó veitt heimild til að gera Alþingi, hlutaðeigandi ráðherra eða sveitarstjórnum viðvart ef hann verður var við meinbugi á gildandi lögum eða almennum stjórnvaldsfyrirmælum í störfum sínum.

Ekki er gert ráð fyrir að kvörtun verði borin fram við umboðsmann vegna hugsanlegra meinbuga á lögum. Þegar ábendingar berast um slíkt hefur umboðsmaður þó kynnt sér efni þeirra og sama gildir ef vísbending um slíkt verður ráðin af gögnum máls sem hann hefur til umfjöllunar á grundvelli kvörtunar. Meinbugir á lögum geta verið formlegs eðlis, svo sem misræmi milli ákvæða, prentvillur, óskýr texti o.fl.

Hinn 28. febrúar 2011 leitaði til umboðsmanns Alþingis einstaklingur sem hafði sótt um starf framkvæmdastjóra Íslandsstofu en ekki hlotið það. Kvörtun hans laut m.a. að því að beiðni hans um upplýsingar um umfjöllun og meðferð á umsókn hans um starfið, aðgang að hæfnismati og rökstuðning fyrir ákvörðun um ráðningu í starfið hefði verið synjað með vísan til þess að Íslandsstofa hefði stöðu einkaréttarlegs aðila. Umboðsmaður taldi hins vegar að Íslandsstofa væri stjórnvald og mæltist til þess að stofnunin tæki beiðni einstaklingsins til nýrrar meðferðar, óskaði hann þess, og hagaði störfum sínum framvegis í samræmi við skráðar og óskráðar reglur stjórnsýsluréttarins. 

Athugun málsins leiddi einnig til þeirrar niðurstöðu umboðsmanns að hefði ætlunin verið að búa svo um hnútana með lögum nr. 38/2010 að Íslandsstofa teldist einkaaðili og að reglur stjórnsýsluréttarins giltu ekki um starfsemi hennar hefði það ekki verið gert með fullnægjandi hætti. Hann ákvað því að kynna Alþingi álit sitt í málinu, sbr. 11. gr. laga nr. 85/1997, m.a. með það í huga að vekja athygli á mikilvægi þess að taka hverju sinni skýra afstöðu til stjórnsýslulegrar stöðu þeirrar stofnana, fyrirtækja og annarra aðila sem komið er á fót með lögum og/eða eru fjármagnaðar með opinberu fé.

Þess má geta að í ársskýrslu umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2009 vakti settur umboðsmaður, Róbert R. Spanó, athygli á að þegar löggjafinn kæmi á fót nefndum, stofum og fyrirtækjum, væri nauðsynlegt að taka skýra afstöðu til stjórnsýslulegrar stöðu hlutaðeigandi aðila í annaðhvort lagatexta eða lögskýringargögnum. Umfjöllun Róberts um það efni má finna í kafla I.3.5 í skýrslunni (bls. 15-17 í prentaðri útgáfu hennar).

Álit umboðsmanns Alþingis frá 20. september 2011 í máli nr. 6327/2011 er aðgengilegt á heimasíðunni.

Álit nr. 6327/2011
Umfjöllun Róberts R. Spanó