11. október 2011

Ábending vegna fyrirhugaðrar endurskoðunar á lögum um stjórn fiskveiða

Hinn 30. september 2011 lauk umboðsmaður Alþingis athugun á því hvort reikniregla í reglugerð um úthlutun byggðakvóta samrýmdist lögum (mál nr. 5046/2007).

Í 10. gr. laga nr. 116/2006 er sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fengin heimild til að ráðstafa tilgreindu magni af óslægðum botnfiski, annars vegar í svokallaðar aflabætur, þ.e. til að „mæta áföllum sem fyrirsjáanleg eru vegna verulegra breytinga á aflamarki einstakra tegunda“ og hins vegar í byggðakvóta. Byggðakvótinn er ætlaður minni byggðarlögum „sem lent hafa í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi og háð eru veiðum eða vinnslu á botnfiski“ og byggðarlögum „sem hafa orðið fyrir óvæntri skerðingu á heildaraflaheimildum fiskiskipa sem gerð hafa verið út og landað hafa afla í viðkomandi byggðarlögum og sem hefur haft veruleg áhrif á atvinnuástand í byggðarlögunum“

Kveðið er á um útreikning á byggðakvóta í reglugerð sem gildir fyrir hvert fiskveiðiár. Árið 2007 barst umboðsmanni kvörtun frá sveitarfélagi þar sem m.a. voru gerðar athugasemdir við magn aflaheimilda sem komu í hlut sveitarfélagsins fiskveiðiárið 2006/2007. Þeirri athugun lauk en málið varð til þess að umboðsmaður tók til athugunar að eigin frumkvæði hvort heimilt væri að reikna byggðakvóta til byggðarlaga sem hafa orðið fyrir „óvæntri skerðingu á heildaraflaheimildum fiskiskipa“ eingöngu út frá „samdrætti í vinnslu á skel og rækju“ eins og gert var í reglugerð fyrir það fiskveiðiár og hefur verið lagt til grundvallar við úthlutun byggðakvóta á síðari fiskveiðiárum. Þannig hefur ekki verið litið til samdráttar í vinnslu á öðrum tegundum við útreikning byggðakvóta á grundvelli þessarar reiknireglu.

Umboðsmaður frestaði athuguninni í nokkurn tíma vegna yfirstandandi endurskoðunar á fiskveiðilöggjöfinni en ákvað í október 2011 að ljúka henni, annars vegar í ljósi áforma ríkisstjórnarinnar um að leggja til frekari lagabreytingar um haustið og hins vegar þar sem langt var liðið frá því að málið var tekið til athugunar.

Í bréfi umboðsmanns til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra vegna málsins kemur fram að meðferð Alþingis á frumvarpi er síðar varð að lögum nr. 21/2007 um breytingu á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, veiti ákveðnar vísbendingar um að það hafi verið afstaða löggjafans að byggðakvóta eigi ekki að nýta til að koma til móts við áföll sem eru fyrirsjáanleg vegna verulegra breytinga á aflamarki einstakra tegunda, s.s. rækju og skel, heldur eigi aflabætur að gegna því hlutverki. Umboðsmaður taldi hins vegar að orðalag ákvæðis í lögum um stjórn fiskveiða, þ.e. b-liðar 2. tölul. 1. mgr. 10. gr., væri með þeim hætti að hann gæti ekki fullyrt með óyggjandi hætti að slíkt samrýmdist ekki orðalagi ákvæðisins.

Umboðsmaður taldi því ekki tilefni til nánari athugunar á málinu en ákvað þó að benda ráðherra á að tilefni gæti verið að til að huga að því, við fyrirhugaða endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða, hvort ákvæði 10. gr. laganna fæli í sér nægilega skýra afstöðu til þess hvort ráðherra væri heimilt að takmarka úthlutun aflaheimilda til byggðarlaga sem hafa orðið fyrir óvæntri skerðingu á heildaraflaheimildum við skerðingu vegna samdráttar í vinnslu á „skel og rækju“.