04. nóvember 2011

Fundur með stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis

Hinn 1. nóvember 2011 átti stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins Alþingis fund með umboðsmanni Alþingis á skrifstofu embættisins að Álftamýri 7 í Reykjavík.

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd var komið á fót með lögum nr. 84/2011, um breytingu á lögum nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis. Nefndinni er ætlað að styrkja eftirlitshlutverk þingsins og umfjöllun þingsins um stjórnskipunarmál. Kosið var í nefndina við upphaf 140. þings og í henni sitja níu þingmenn.

Nefndin fjallar um stjórnarskrármál, málefni forseta Íslands, Alþingis og stofnana þess, kosningamál, málefni Stjórnarráðsins í heild og önnur mál sem varða æðstu stjórn ríkisins. Enn fremur fjallar nefndin um skýrslur Ríkisendurskoðunar og um ársskýrslu og tilkynningar umboðsmanns Alþingis. Nefndin skal einnig hafa frumkvæði að því að kanna ákvarðanir einstakra ráðherra eða verklag þeirra sem ástæða þykir til að athuga á grundvelli þess eftirlitshlutverks sem Alþingi hefur gagnvart framkvæmdarvaldinu. Komi beiðni um slíka athugun frá a.m.k. fjórðungi nefndarmanna skal hún fara fram. Um athugun sína getur nefndin gefið þinginu skýrslu. Nefndin skal jafnframt leggja mat á og gera tillögu til Alþingis um hvenær rétt er að skipa rannsóknarnefnd, sbr. lög um rannsóknarnefndir. Nefndin tekur skýrslur slíkrar nefndar til umfjöllunar og gefur þinginu álit sitt um þær og gerir tillögur um frekari aðgerðir þingsins.

Á fundinum var fjallað um hlutverk og verkefni nefndarinnar með tilliti til þeirra verkefna sem sem hún fer með og tengjast starfi umboðsmanns.