09. nóvember 2011

Fundur umboðsmanna sem taka þátt í samráðsvettvangi umboðsmanns Evrópusambandsins

Dagana 20.-22. október sl. var haldinn í Kaupmannahöfn fundur umboðsmanna þjóðþinga og svæðisbundinna umboðsmanna sem taka þátt í sérstökum samráðsvettvangi sem umboðsmaður Evrópusambandsins hefur haldið úti í nokkur ár.

Hann sækja umboðsmenn í aðildarríkjum Evrópusambandsins og í þeim ríkjum sem sótt hafa um aðild að sambandinu. Auk þess hefur þeim ríkjum sem eiga aðild að EES-samningnum og Schengen-samstarfinu boðist að taka þátt.

Innan þessa samráðsvettvangs er m.a. miðlað upplýsingum um starfsemi umboðsmannanna, úrlausnir Evrópudómstólsins og reglur og ákvarðanir Evrópusambandsins um þau málefni sem umboðsmenn í einstökum ríkjum fjalla gjarnan um. Þá er mögulegt innan þessa samráðsvettvangs að senda út fyrirspurnir vegna einstakra álitaefna og fá upplýsingar um úrlausnir og aðkomu annarra umboðsmanna að þeim. Umboðsmaður Alþingis hefur átt þess kost að taka þátt í samstarfinu vegna aðildar Íslands að EES-samningnum og Schengen-samstarfinu. Á þessum fundi var Íslandi skipað á bekk með þeim ríkjum sem sótt hafa um aðild að Evrópusambandinu.

Fundinn sóttu Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, og Særún María Gunnarsdóttir lögfræðingur en hún er sérstaklega tilefndur fulltrúi umboðsmanns Alþingis í þessu samstarfi.
Á fundinum var fjallað um ýmis mál sem tengjast samráðsvettvangnum og samvinnu á milli umboðsmannanna og það hagræði sem af því leiðir, samstarf á sviði umhverfismála, samskipti umboðsmanna við SOLVIT-miðstöðvar, Borgarafrumkvæði Evrópu og hugsanleg áhrif réttindaskrár Evrópusambandsins á stjórnsýslu aðildarríkjanna. Þá var rætt um tengsl og samskipti umboðsmanna við þjóðþingin og mikilvægi þess að sjálfstæði umboðsmanna sé tryggt.