11. nóvember 2011

Upplýsingar um laus leikskólapláss í Reykjavík

Eitt af því sem umboðsmaður Alþingis gætir að í eftirliti sínu með starfsemi stjórnvalda er hvort lagðar eru hömlur á tjáningarfrelsi opinberra starfsmanna eða möguleika forstöðumanna á að veita þeim sem þess óska upplýsingar um starfsemi sína með tilheyrandi takmörkunum á möguleikum almennings til upplýstrar umræðu.

Umboðsmaður Alþingis hefur ritað Reykjavíkurborg bréf, dags. 8. nóvember 2011, og óskað eftir upplýsingum um tiltekin atriði er snúa að afhendingu upplýsinga um fjölda lausra leikskólaplássa í borginni.

Í fyrsta lagi spurði umboðsmaður hvort leikskólastjórum í Reykjavík hefðu verið gefin bein fyrirmæli um að veita fréttastofu Ríkisútvarpsins ekki upplýsingar um fjölda lausra plássa í leikskólum borgarinnar og þá hver hefði veitt fyrirmælin og á hvaða grundvelli.

Í öðru lagi óskaði umboðsmaður eftir því að fá send afrit af öllum samskiptum Reykjavíkurborgar við leikskólastjóra sem vörðuðu fyrirspurn Ríkisútvarpsins.

Í þriðja lagi óskaði umboðsmaður eftir upplýsingum um það á hvaða lagagrundvelli synjun Reykjavíkurborgar á beiðni fréttastofu Ríkisútvarpsins um upplýsingar um fjölda lausra plássa í leikskólum borgarinnar byggðist.

Upplýsinganna er óskað til þess að umboðsmaður geti metið hvort tilefni er fyrir hann að taka málið til athugunar að eigin frumkvæði. Reykjavíkurborg hefur verið veittur frestur til 9. desember 2011 til að svara bréfinu.