25. nóvember 2011

Ársskýrsla umboðsmanns Alþingis 2010 komin út

Skýrsluna má nálgast á pdf-skjali hér [Skýrsla umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2010] eða á pappírsformi á skrifstofu umboðsmanns að Álftamýri 7 í Reykjavík.

Fjallað verður um skýrsluna á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis næstkomandi þriðjudag, 29. nóvember, á milli kl. 10.00 og 12.00. Fundurinn er öllum opinn og hægt verður að fylgjast með honum í beinni útsendingu á vef Alþingis.

Skýrslan er samin í samræmi við 12. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, þar sem fram kemur að umboðsmaður skuli gefa Alþingi árlega skýrslu um starfsemi sína á liðnu almanaksári. Með skýrslunni gefst Alþingi kostur á fá að innsýn í starf umboðsmanns og verkefni. Í ár hefur verið látið við það sitja, nema í undantekningartilvikum, að birta útdrátt eða reifun á álitum og lokabréfum umboðsmanns. Þeir sem vilja kynna sér álit og aðrar birtar niðurstöður í heild sinni geta nálgast þær hér á heimasíðu embættisins. Eins og fyrri ár hefur hins vegar verið lögð áhersla á að greina frá viðbrögðum stjórnvalda við tilmælum sem umboðsmaður hefur beint til þeirra í tilefni af athugunum sínum. Á grundvelli þeirra upplýsinga er Alþingi betur í stakk til þess búið að taka afstöðu til þess hvort það telur tilefni til þess að fjalla frekar um þau viðbrögð.
 
Uppbygging og efnistök skýrslunnar eru með svipuðum hætti og áður. Í I. hluta skýrslunnar er fjallað um fjölda mála sem hafa verið til meðferðar, helstu viðfangsefni á árinu, mál sem umboðsmaður hefur tekið til athugunar að eigin frumkvæði, erlent samstarf og fundi. Á meðal þess sem umboðsmaður gerir að sérstöku umfjöllunarefni eru svör stjórnvalda við erindum og málshraðareglur í stjórnsýslunni, málefni opinberra starfsmanna, viðbrögð stjórnvalda við gagnrýni og aðfinnslum og gæði lagasetningar. Í II. hluta skýrslunnar er að finna tölulegar upplýsingar og greiningu á skráðum og afgreiddum málum á árinu 2010. Þar er einnig fjallað um viðbrögð stjórnvalda við tilmælum umboðsmanns og greint frá tilkynningum um meinbugi á lögum eða stjórnsýsluframkvæmd. Í III. hluta er að finna yfirlit yfir álit og aðrar niðurstöður á árinu 2010. Í IV. hluta er að finna upplýsingar vegna áður afgreiddra mála og í V. hluta er að lokum að finna skrá yfir þau mál sem hafa birst í skýrslum umboðsmanns Alþingis í númeraröð.

Skýrsla umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2010 (pdf, 1MB)