20. desember 2011

Fundur vestnorrænna umboðsmanna í Kaupmannahöfn

Hliðstæð löggjöf um störf og starfshætti umboðsmanna þjóðþinganna í Danmörku, Noregi og á Íslandi varð til þess að umboðsmenn þessara þinga hafa frá árinu 1989 átt með sér samstarf.

Síðar hafa umboðsmenn þinganna á Grænlandi og í Færeyjum bæst í hópinn.

Umboðsmennirnir hafa að jafnaði haldið einn eða tvo fundi árlega þar sem meðal annars er rætt um einstök álitaefni sem þeir hafa til úrlausnar ásamt því að skipst er á upplýsingum um starfsemi embætta þeirra. Einn slíkur fundur var haldinn í Kaupmannahöfn dagana 7.-9. desember sl. Þess má geta að þetta var síðasti fundurinn sem núverandi umboðsmaður danska þjóðþingsins, Hans Gammeltoft-Hansen, tók þátt í. Hann lætur af starfi í lok janúarmánaðar eftir 25 ára starf. Nýr umboðsmaður danska þjóðþingsins er Jørgen Steen Sørensen sem hefur gegnt starfi ríkissaksóknara í Danmörku.