17. janúar 2012

Kvörtunum fjölgaði um 40% milli ára

Á árinu 2011 bárust umboðsmanni Alþingis alls 519 kvartanir og hann hafði á sama tíma tekið níu mál til athugunar að eigin frumkvæði.


Skráð mál á árinu voru því alls 528.

Árið 2010 bárust 370 kvartanir og sjö mál voru tekin til athugunar að frumkvæði umboðsmanns. Málum hefur því fjölgað verulega milli ára eða um 40%. Umboðsmaður hefur jafnframt afgreitt fleiri mál á árinu en nokkru sinni fyrr eða alls 473 mál en flest höfðu þau áður verið árið 2010 eða 398. Um áramótin voru alls 157 mál til athugunar hjá umboðsmanni en á sama tíma í fyrra voru 102 mál til athugunar. Þessi staða skýrist m.a. af því að kvörtunum til umboðsmanns fjölgaði fyrst og fremst á síðari hluta ársins og af hálfu umboðsmanns er því beðið skýringa stjórnvalda í fleiri málum en áður og fleiri mál eru einnig til lokaafgreiðslu.

Eins og síðustu ár lutu flest þeirra mála sem skráð voru að töfum á afgreiðslu mála hjá stjórnvöldum en þeim fjölgaði úr 67 í 135. Síðustu ár hafa þessi mál verið um 18% skráðra mála alls en voru á síðasta ári 25,5%. Tíu stærstu málaflokkarnir á árinu 2011 voru:
 
1. Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls (135)
2. Skattar og gjöld (53)
3. Opinberir starfsmenn (38)
4. Fjármála- og tryggingastarfsemi (32)
5. Almannatryggingar (21)
6. Lögreglu- og sakamál (19)
7. Atvinnuleysistryggingar (13)
8. Atvinnuréttindi og atvinnufrelsi (12)
9-10. Fangelsismál (11)
10. Menntamál (11)Eins og áður sagði var mest fjölgun í kvörtunum yfir töfum á afgreiðslu mála hjá stjórnvöldum. Málum er vörðuðu fjármála- og tryggingastarfsemi fjölgaði úr 15 í 32, málum vegna skatta og gjalda fjölgaði úr 36 í 53 og lögreglu- og sakamálum fjölgaði úr 11 í 19. Kvörtunum vegna afgreiðslu á beiðnum um aðgang að gögnum og upplýsingum fjölgaði úr 4 í 10, gjafsóknarmálum fjölgaði úr 3 í 9 og 6 kvartanir vegna lífeyrismála bárust en engin slík kvörtun barst árið 2010.

Málaflokkar sem fækkaði nokkuð í voru málefni barna, en þar fækkaði úr 11 málum í 4, málum vegna námslána og námsstyrkja fækkaði úr 8 í 4, skipulags- og byggingarmálum fækkaði úr 8 í 2 og kvörtunum vegna málefna sveitarfélaga fækkaði úr 8 í 4. Við síðastnefnda málaflokkinn verður þó að gera þann fyrirvara að mál sem varða félagsþjónustu og skólamál eru ekki talin þar með.

Þess má síðan geta að í desember 2011 lauk umboðsmaður athugun sinni á 54 málum. Nýjar kvartanir í mánuðinum voru 31 talsins. Til samanburðar má nefna að í desember 2010 bárust 23 kvartanir og athugun var lokið á 56 málum.