23. janúar 2012

Hvað er spunnið í opinbera vefi 2011?

Hinn 18. janúar 2012 stóðu innanríkisráðuneytið og Skýrslutæknifélag Íslands að fundi þar sem kynntar voru niðurstöður 4. úttektar á opinberum vefjum ríkis og sveitarfélaga. Í úttektinni var lagt mat á aðgengi, nytsemi, innihald og þjónustu vefjanna.

Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, hélt erindi á fundinum sem bar yfirskriftina „Horft fram á veg – hvað má betur fara á opinberum vefjum?“ Í því velti hann einkum fyrir sér í þágu hvers opinberir vefir eiga að vera. Á meðal atriða sem Tryggvi nefndi sérstaklega var að á opinberum vefjum ætti að vera hægt að nálgast upplýsingar um réttindi og skyldur borgaranna, hvert þeir ættu að snúa sér í samskiptum við stjórnsýsluna og hvernig þeir ættu að bera sig að. Hann benti á mikilvægi þess að efla rafræna stjórnsýslu og að hægt væri að nálgast með einföldum hætti upplýsingar um lagareglur og stjórnsýsluframkvæmd. Þá nefndi hann að Netið mætti nota í þágu eftirlits og aðhalds, s.s. með birtingu ýmiss konar upplýsinga sem aflað er í opinberu eftirliti en það myndi gera borgurunum sjálfum kleift að fylgjast með og bregðast við málum sem þá varða og jafnframt auka jafnvægi í samfélagsumræðu þar sem almenningur hefði þá sömu upplýsingar og stjórnvöld. Að lokum fjallaði Tryggvi um kosti þess að nota opinbera vefi í þágu lýðræðis með því að auka þátttöku borgaranna í undirbúningi og töku ákvarðana. Glærur frá erindi Tryggva er hægt að skoða með því að smella á tengilinn neðst í þessari frétt.

Glærur Tryggva