09. febrúar 2012

Fundur með mannréttindafulltrúa Evrópuráðsins

Hinn 7. febrúar sl. átti mannréttindafulltrúi Evrópuráðsins, Thomas Hammerberg, fund með umboðsmanni Alþingis.

Evrópuráðinu er ætlað að efla samvinnu aðildarríkjanna með það að markmiði að standa vörð um mannréttindi, styrkja lýðræðislega stjórnarhætti, efla mannleg gildi og almenn lífsgæði Evrópubúa. Aðild að því eiga 47 Evrópuríki. Mannréttindafulltrúi Evrópuráðsins hefur það hlutverk að efla vitund um og virðingu fyrir mannréttindum í aðildarríkjunum. Í því skyni fer hann m.a. í heimsókn til aðildarríkjanna og hittir fulltrúa stjórnvalda, frjálsra félagasamtaka og aðra þá sem hafa aðkomu að mannréttindamálum. Í framhaldi af því gefur hann ráðherranefnd Evrópuráðsins skýrslu um niðurstöður sínar sem stundum hefur að geyma ábendingar og tilmæli um tiltekin atriði.

Á fundi mannréttindafulltrúans og umboðsmanns var rætt um þau álitaefni sem hafa komið til athugunar í starfi umboðsmanns síðustu misseri og tengjast eftirlitsstarfi mannréttindafulltrúans.