05. júní 2012

Eftirlit umboðsmanns Alþingis með siðareglum í stjórnsýslunni

Með lögum sem samþykkt voru á Alþingi 16. júní 2010 var umboðsmanni Alþingis fengið það hlutverk að gæta þess að stjórnsýsla fari fram í samræmi við siðareglur settar á grundvelli laga um Stjórnarráð Íslands og laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Siðareglur ráðherra voru samþykktar í ríkisstjórn Íslands árið 2011 og nú hefur forsætisráðherra staðfest siðareglur fyrir starfsfólk Stjórnarráðs Íslands. Almennar siðareglur fyrir starfsmenn ríkisins á grundvelli laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins hafa ekki enn verið settar. Að beiðni forsætisráðuneytisins kom umboðsmaður Alþingis til fundar við lögfræðinga úr öllum ráðuneytunum 1. júní 2012 þar sem rætt var um eftirlit umboðsmanns með siðareglunum.


Sá sem telur að brot á siðareglunum feli í sér að hann sjálfur hafi verið beittur rangsleitni getur borið fram kvörtun við umboðsmann. Enn fremur er gert ráð fyrir því að unnt sé að koma á framfæri við umboðsmann ábendingum um brot á siðareglum. Sérstaklega skal tekið fram að í siðareglum starfsfólks Stjórnarráðs Íslands kemur fram að starfsfólk gjaldi ekki fyrir ábendingar um brot á siðareglum eða fyrir að leita réttar síns telji það á sér brotið.