05. júní 2012

Fundur norrænna umboðsmanna þjóðþinga í Færeyjum

Umboðsmenn þjóðþinganna á Norðurlöndunum koma að jafnaði saman til fundar annað hvert ár og var slíkur fundur haldinn í Færeyjum dagana 22.-24. maí 2012.

Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, og Berglind Bára Sigurjónsdóttir skrifstofustjóri sóttu fundinn.

Á fundinum var fjallað um þróun og breytingar í starfi umboðsmannanna að undanförnu. Fram kom að í Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi hefur umboðsmönnunum m.a. verið með lögum falið að sinna svonefndu OPCAT-eftirliti samkvæmt valfrjálsri bókum við Samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyntingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Það eftirlit beinist ekki eingöngu að starfsemi á vegum stjórnvalda heldur einnig að starfsemi einkaaðila þar sem einstaklingar eru vistaðir. Mikil fjölgun kvartana til umboðsmanns Alþingis, einkum á síðasta ári og það sem af er þessu ári, vakti einnig athygli fundarmanna og rætt var um mögulegar ástæður þess.


Auk þess að fjalla almennt um þróun í starfi umboðsmanna þjóðþinganna voru ákveðin viðfangsefni tekin sérstaklega til umfjöllunar. Þannig var m.a. rætt um stöðu umboðsmanna gagnvart eftirlitsstjórnvöldum, bæði þeim sem teljast hluti af stjórnsýslu viðkomandi ríkis og falla beint undir eftirlit umboðsmannanna sem og fjölþjóðlegra eftirlitsaðila sem ætlað er að fylgjast með því að aðildarríkin uppfylli þær kröfur sem leiða af alþjóðasamningum, svo sem á vegum Evrópuráðsins, Evrópusambandsins og Sameinuðu þjóðanna. Þá var fjallað um breytingar á innra skipulagi embætta umboðsmannanna með tilliti til þess í hvaða mæli umboðsmönnunum hefði verið veitt heimild til að fela ákveðnum starfsmönnum endanlega afgreiðslu ákveðinna mála, svo sem þeirra sem ekki uppfylla skilyrði laga til þess að kvörtun verði tekin til meðferðar. Rætt var um notkun stjórnvalda á samfélagsmiðlum eins og Facebook og Twitter og með tilliti til bæði notkunar á þeim upplýsingum sem notendur færa þar inn og miðlunar upplýsinga af hálfu stjórnvalda. Þá var sérstaklega fjallað um samspil þess eftirlits sem umboðsmönnum þjóðþinganna er ætlað að rækja og starfsemi mannréttindastofnana sem starfa samkvæmt hinum svonefndu Parísarviðmiðum.


Tryggvi Gunnarsson hélt framsögu um eftirlit umboðsmanna með eftirlitsstjórnvöldum. Hann fjallaði m.a. um hvað fram hefði komið við athuganir á aðdraganda bankahrunsins á Íslandi árið 2008 um starf eftirlitsaðila með fjármálakerfinu og almennt um eftirlit stjórnvalda, og þá ráðuneytanna sem æðstu stjórnsýslustofnana á sínu málefnasviði, með þróun þeirra málefna sem undir þau heyra. Tryggvi fjallaði jafnframt um þær breytingar sem orðið hafa í stjórnsýslu m.a. Norðurlandanna þar sem aukin áhersla hefur verið lögð á margvíslegt eftirlit stjórnvalda í stað beinna og fyrirfarandi afskipta af málefnum borgaranna. Þetta segði líka til sín í löggjöf þar sem sérhæfðum eftirlitsstjórnvöldum og aðilum á markaði væri í vaxandi mæli falið að setja nánari reglur um útfærslu á þeim ramma sem fram kæmi í lögum um viðkomandi starfsemi. Í þessu sambandi gætti líka fjölþjóðlegra áhrifa svo sem vegna reglna sem settar væru á vettvangi Evrópusambandsins og EES-samningsins. Af þessu leiddi að eftirlit umboðsmanna þjóðþinganna beindist í auknum mæli að starfsemi eftirlitsaðila og því hvernig þeir sinntu eftirliti sínu og höguðu útfærslu á þeim reglum sem þeim væri ætlað að móta og setja. Á sama hátt þyrfti, með tilliti til almannahagsmuna, að huga að því hvernig einstakar stofnanir, þ.m.t. ráðuneytin, sinntu hinu almenna eftirliti með þróun mála á sínu málefnasviði. Þetta eftirlit kæmi því að nokkru leyti til viðbótar við hið hefðbundna eftirlit umboðsmanna með því hvernig stjórnvöld, s.s. ráðuneyti og sérstakar úrskurðar- og kærunefndir, sinntu hefðbundnu stjórnsýslueftirliti á grundvelli yfirstjórnunar- og eftirlitsheimilda sinna eða í tilefni af stjórnsýslukærum.