05. júní 2012

Málstofa Evrópunefndar gegn kynþáttafordómum og umburðarleysi

Vegna verkefna sinna fylgist umboðsmaður Alþingis með og tekur eftir því sem aðstæður leyfa þátt í fundum og fræðslustarfi sem Evrópuráðið og nefndir á vegum þess standa fyrir, einkum á sviði mannréttinda.

Þátttaka í þessu starfi auðveldar umboðsmanni að fylgjast með þróun þessara mála, nýjum reglum og ákvörðunum eftirlitsaðila með þeim og þar með hvort þessar reglur hafa gildi hér á landi og hvernig þeim er fylgt af hálfu hlutaðeigandi stjórnvalda. Á sama hátt kunna upplýsingar af þessu tagi að hafa þýðingu þegar umboðsmaður tekur afstöðu til þess hvort tilefni sé til þess að beina til Alþingis og/eða ráðherra tilmælum vegna meinbuga á lögum í skilningi 11. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Dagana 31. maí til 1. júní 2012 stóð ECRI (e. European Commission against Racism and Intolerance), eða Evrópunefnd gegn kynþáttafordómum og umburðarleysi, fyrir málstofu þar sem fjallað var um það hvernig þær innlendu stofnanir, sem komið hefur verið á fót til að vinna gegn kynþáttamismunun og kynþáttamisrétti, takast á við nýjar aðstæður í starfsemi sinni, s.s. breytinga á starfssviði og niðurskurði á fjárveitingum vegna efnahagskreppunnar. Slíkt hefur haft veruleg áhrif á starfsemi sumra þessara stofnana og fór málstofan fram með það fyrir sjónum að unnt verði að leggja fram tillögur um aðgerðir til úrbóta. Margrét María Grétarsdóttir lögfræðingur sótti málstofuna fyrir hönd umboðsmanns Alþingis.