12. júlí 2012

Ákvörðun lágmarksverðs fyrir löndunarskyldan afla

Hinn 29. júní 2012 kom umboðsmaður Alþingis ábendingum á framfæri við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um tiltekna annmarka á reglugerðarákvæði um úthlutun byggðakvóta.

Hann hefur jafnframt óskað þess að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið upplýsi um það hvort það hyggst bregðast við ábendingunum.

Tildrög málsins voru kvörtun útgerðarfélags yfir úthlutun á byggðakvóta sveitarfélags til tiltekins fiskiskips fyrir fiskveiðiárið 2009/2010. Útgerðin hafði landað afla í tilteknu byggðarlagi í sveitarfélaginu en síðan flutt aflann til vinnslu í öðru sveitarfélagi. Eitt af skilyrðum fyrir úthlutun byggðakvóta er að fiskiskip landi tilteknu magni aflamarks til vinnslu innan hlutaðeigandi byggðarlaga. Fiskistofa, og síðar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið, töldu að þar sem aflinn hafði verið fluttur til vinnslu í öðru sveitarfélagi væri þessu skilyrði ekki fullnægt. Það leiddi til þess að það sem eftir var af úthlutun til bátsins, sem útgerðinni hafði áður verið tilkynnt um með fyrirvara um löndunarskyldu, var úthlutað til annarra báta við endurúthlutun í byggðarlaginu. Í tilefni af málinu ákvað umboðsmaður að rita ráðherra bréf og benda á tiltekna annmarka á 7. gr. reglugerðar nr. 82/2010, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2009/2010, og þá m.a. þar sem efnislega sambærileg ákvæði hafa verið sett í reglugerðir fyrir síðari fiskveiðiár. Umboðsmaður taldi annmarkana hins vegar ekki leiða til þess að útgerðarfélagið væri undanþegið skilyrði um löndunarskyldu og gerði því ekki athugasemdir við niðurstöðu ráðuneytisins í málinu.

Í 5. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, er mælt fyrir um að ráðherra setji í reglugerð almenn skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta, m.a. varðandi lágmarksverð. Við útfærslu á ákvörðun lágmarksverðs í 7. gr. reglugerðarinnar hefur ráðherra hins vegar ekki farið þá leið að taka beina ákvörðun um hvaða lágmarksverð fiskvinnslu, sem kaupir löndunarskyldan afla til vinnslu, ber að greiða fyrir hann heldur er kveðið á um að verðið skuli ekki vera lægra en það verð sem ákveðið er af Verðlagsstofu skiptaverðs. Í máli útgerðarfélagsins var því haldið fram að skilyrði um löndunarskyldu gæti ekki komið í veg fyrir að við úthlutun byggðakvóta yrði litið til þess afla sem útgerðin hafði flutt til vinnslu í öðru sveitarfélagi þar sem eina fiskvinnslan í byggðarlaginu þar sem átti að landa kvótanum hefði ekki verið reiðubúin að greiða lágmarksverð fyrir aflann.

Fjallað er um hlutverk Verðlagsstofu skiptaverðs í lögum nr. 13/1988, um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna.  Í svari sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins til umboðsmanns kom fram að fallist væri á að af þeim yrði ekki séð að Verðlagsstofa hefði að lögum það stjórnsýsluhlutverk að ákveða sjálfstætt verð fyrir afla með þeim hætti sem mælt er fyrir um í 7. gr. reglugerðar nr. 82/2010. Þá taldi umboðsmaður ekki verða séð að sú aðferð við ákvörðun lágmarksverðs sem mælt er fyrir um í reglugerðinni geti leitt til lykta ágreining sem kann að rísa milli útgerðar og fiskvinnslu um verð fyrir löndunarskyldan afla.

Í bréfi sínu til ráðherra, dags. 29. júní 2012, benti umboðsmaður á að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið yrði að gæta þess að haga ákvæðum reglugerða sem vísa til valdheimilda annarra stjórnvalda í samræmi við raunverulegar og efnislegar valdheimildir viðkomandi stjórnvalds. Í því sambandi benti hann á að ákvæði af sama tagi og  ákvæði 7. gr. reglugerðar nr. 82/2010 væru til þess fallin að vekja þær röngu væntingar hjá þeim sem stunda viðskipti með löndunarskyldan afla að í gildi sé lágmarksverð ákveðið af Verðlagsstofu og að ágreining um það megi bera undir úrlausn stjórnvalda.

Umboðsmaður benti einnig á að eins og gildandi regluverki væri háttað gæti útgerðarfélag þurft að sæta því, vildi það halda möguleika sínum á úthlutun byggðakvóta, að þurfa að landa afla til vinnslu á tilteknum stað á landinu þrátt fyrir að eina fiskivinnslan þar vildi ekki greiða hliðstætt verð og greitt væri fyrir sambærilegan afla annars staðar. Með tilliti til þess vilja Alþingis, sem kemur fram í lögum um stjórn fiskveiða, að ráðherra skuli mæla fyrir um lágmarksverð fyrir löndunarskyldan afla kom umboðsmaður því jafnframt þeirri ábendingu á framfærri við ráðuneytið að hugað yrði að betri útfærslu á reglum þar að lútandi. Í því sambandi benti hann á að í 21. gr. fyrirliggjandi frumvarps til nýrra laga um stjórn fiskveiða væri áfram gert ráð fyrir að sett yrðu skilyrði í reglugerð um lágmarksverð.

Umboðsmaður hefur óskað þess að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið upplýsi sig um það hvort það hyggst bregðast við ábendingunum þegar ákvörðun um það liggur fyrir. Að fengnum þeim upplýsingum mun umboðsmaður meta hvort tilefni sé til þess að kynna athugun málsins sérstaklega fyrir Alþingi.

Reifun í máli nr. 6784/2011.