11. júlí 2012

Unnið að því að stytta afgreiðslutíma hjá UA

Á árinu 2011 fjölgaði kvörtunum sem bárust umboðsmanni Alþingis um 40% frá árinu 2010 og sama þróun hélt áfram fram á þetta ár. Þessi mikla fjölgun nýrra kvartana hefur leitt til þess að tafir hafa orðið á lokaafgreiðslu eldri mála.

Nýjum málum hefur hins vegar almennt verið komið í farveg eða þau afgreidd ef umboðsmaður hefur ekki talið uppfyllt lagaskilyrði til að fjalla um þau.

Til að greiða fyrir lokaafgreiðslu eldri mála óskaði Tryggvi Gunnarsson, kjörinn umboðsmaður Alþingis, eftir því við forsætisnefnd Alþingis að heimild í 2. mgr. 14. gr. laga umboðsmann Alþingis yrði notuð til að setja einstakling sem umboðsmann Alþingis til að fjalla um og ljúka afgreiðslu tiltekinna mála sem hann viki sæti í. Forsætisnefndin féllst á tillöguna og forseti Alþingis hefur sett Róbert R. Spanó, lagaprófessor og forseta lagadeildar Háskóla Íslands, sem umboðsmann Alþingis í tólf málum af þessu tilefni. Róbert starfaði hjá umboðsmanni á árunum 1998 til 2004, lengst af sem aðstoðarmaður umboðsmanns. Hann var settur umboðsmaður Alþingis frá 1. janúar 2009 til 30. júní 2010 á meðan Tryggvi gegndi störfum í rannsóknarnefnd Alþingis. Þá hefur hann undanfarin ár aðstoðað umboðsmann við athugun einstakra mála.

Tryggvi og Róbert munu báðir vinna að lokaafgreiðslu mála hjá embættinu á næstunni. Vonast er til að með þessari ráðstöfun takist að koma afgreiðslutíma mála til samræmis við þau markmið sem umboðsmaður hefur áður sett sér. Tryggvi hefur þegar sent þeim, sem eiga þau mál þar sem hann hefur ákveðið að víkja sæti í, bréf þar sem hann gerir grein fyrir þessari ráðstöfun.