23. júlí 2012

Fundur með fulltrúum frá umboðsmönnum þjóðþinga í Evrópusambandinu

Dagana 24.-26. júní 2012 var haldinn í Strassborg fundur með tengiliðum umboðsmanns Evrópusambandsins (Liaison Seminar 2012).

Umboðsmaður Evrópusambandsins stendur fyrir sérstökum samráðsvettvangi og samstarfi milli umboðsmanna þjóðþinga í Evrópusambandinu. Innan þessa samstarfs er m.a. miðlað upplýsingum um starfsemi umboðsmannanna, úrlausnir Evrópudómstólsins og reglur og ákvarðanir Evrópusambandsins um þau málefni sem umboðsmenn í einstökum ríkjum fjalla gjarnan um. Þá er mögulegt innan þessa samráðsvettvangs að senda út fyrirspurnir vegna einstakra álitaefna og fá upplýsingar um úrlausnir og aðkomu annarra umboðsmanna að þeim. Umboðsmaður Alþingis hefur átt þess kost að taka þátt í þessu samstarfi vegna aðildar Íslands að EES-samningnum og Schengen-samstarfinu.

Fundinn sótti Særún María Gunnarsdóttir lögfræðingur sem er tilefndur fulltrúi umboðsmanns Alþingis í þessu samstarfinu. Á fundinum var m.a. fjallað um Borgarafrumkvæði Evrópu, rétt sambandsborgara til að leggja beiðni fyrir Evrópuþingið og þá málsmeðferð sem slík beiðni hlýtur. Fulltrúar frá umboðsmanni Evrópusambandsins og umboðsmannsstofnunum í Stóra-Bretlandi og Frakklandi kynntu fyrir öðrum fundarmönnum verkferla sem m.a. miða að innri gæðastjórnun, s.s. í tilefni af óánægju málsaðila, og aukinni þjónustu á í byggðum utan höfuðborgarsvæða. Fulltrúar frá Hollandi, Írlandi og Ungverjalandi fjölluðu um skipulagsbreytingar og breytingastjórnun, ýmist í tilefni af auknu álagi og málsmeðferðartíma, breyttum áherslum eða breytingum á starfssviði. Þá var nokkuð rætt um leiðir til þess að auka sýnileika samstarfsins. Enn fremur var töluvert fjallað um hlutverk og aðkomu umboðsmanna að mannréttindavernd, en mannréttindi og gæsla þeirra hefur sífellt meira vægi í störfum umboðsmannsstofnana í Evrópu og víðar. Sérstakur gestur á fundinum var Jörg Gebhard, fulltrúi frá Mannréttindastofnun Evrópusambandsins, sem gerði það að umtalsefni í erindi sínu að nauðsynlegt væri að koma á auknu samstarfi stofnunarinnar við umboðsmenn aðildarríkjanna. Einnig var fjallað um stofnun að hlutverk nýrrar mannréttindastofnunar í Finnlandi og mannréttindavernd á krepputímum en þar miðlaði fulltrúi Grikkja af reynslu sinnar stofnunar. Að lokum var rætt um aðkomu umboðsmanna að vernd frelsissviptra einstaklinga, en sumar umboðsmannsstofnanir gegna því hlutverki að hafa eftirlit með brottflutningi þeirra sem hefur verið vísað úr landi.