13. september 2012

Stjórnsýslan og norræna velferðarríkið í breyttum heimi

Dagana 29-31. ágúst 2012  var haldin í Turku í Finnlandi ráðstefna á vegum Norræna stjórnsýslusambandsins (Nordiska Administrativa Förbundets allmänna möte).

Norræna stjórnsýslusambandið (NAF) var stofnað 1918 og er samstarfsvettvangur starfsfólks, fræðimanna og annarra sem hafa áhuga á málefnum stjórnsýslunnar innan Norðurlandanna. Sérstakar deildir eru starfandi í Danmörku, Íslandi, Noregi, Finnlandi og Svíþjóð. Markmið sambandsins er að halda ráðstefnu á þriggja ára fresti þar sem hinir ýmsu sérfræðingar koma saman og bera saman bækur sínar,  m.a. í formi fyrirlestra og umræðna. Jafnframt gefur NAF út tímaritið Nordisk Administrativt Tidskrift (NAT). Næsta ráðstefna á vegum sambandsins verður haldin  2015 í Svíþjóð og á árinu 2018 er komin röðin að Íslandi að halda ráðstefnuna en þá verður  sambandið 100 ára.

Efni ráðstefnunnar í Turku var hið norræna velferðarríki í breyttum heimi. Á ráðstefnunni voru haldin erindi og málstofur er vörðuðu málefni á sviði félagsvísinda, þar á meðal á sviði stjórnsýsluréttar í lögfræði. Þau mál sem voru á dagskrá lutu m.a. að málefnum innflytjenda, þróun í félags- og heilsuþjónustu, áhrifum breytinga í  stjórnkerfinu á velferðarsamfélagið og réttaröryggi í stjórnsýslunni í hinum breytta heimi velferðarríkisins. Þá var þeirri spurningu velt upp hvort vönduð stjórnsýsla teljist til mannréttinda í velferðarríki.

Af hálfu umboðsmanns Alþingis hefur verið leitast við að taka þátt í ráðstefnum NAF og fylgjast þannig með þróun þeirra viðfangsefna og álitaefna innan stjórnsýslunnar á Norðurlöndunum sem eru efst á baugi á hverjum tíma. Að þessu sinni sóttu ráðstefnuna Tryggi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, og Ottó Björgvin Óskarsson, lögfræðingur hjá umboðsmanni.