17. október 2012

Eftirlit landlæknis með heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisstarfsmönnum

Landlæknir gegnir m.a. því hlutverki að hafa eftirlit með heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisstarfsmönnum.

Hann á einnig að sinna kvörtunum almennings vegna heilbrigðisþjónustu. Í ágúst síðastliðnum tilkynnti umboðsmaður Alþingis velferðarráðherra að hann hefði það til skoðunar að taka stjórnsýslu þessara mála til athugunar að eigin frumkvæði.

Ástæða þess að umboðsmaður hafði til skoðunar að hefja frumkvæðisathugun á stjórnsýslu landlæknisembættisins voru ýmsar kvartanir og ábendingar sem hafa borist undanfarin misseri vegna eftirlits embættisins og í vissum tilvikum vegna eftirlits velferðarráðuneytisins með landlækni. Efnislega hafa þessar kvartanir m.a. lotið að aðgangi einstaklinga að gögnum, t.d. eigin sjúkraskrá, sjúkraskrá látins maka eða að vinnugögnum heilbrigðisstarfsmanna sem verða til við rannsókn eða meðferð en eru ekki færð í sjúkraskrá, viðbrögðum og niðurstöðum landlæknis í tilefni af kvörtunum yfir vanrækslu eða mistökum við veitingu heilbrigðisþjónustu eða vegna ótilhlýðilegrar framkomu heilbrigðisstarfsmanna, hæfi þeirra sem koma að úrlausn kærumála á vegum landlæknisembættisins og eftirliti með því að heilbrigðisstofnanir eða heilbrigðisstarfsmenn fari að ákvæðum laga, s.s. um tilkynningarskyldu vegna óvæntra atvika, trúnaðar- og þagnarskyldu og aðgang og notkun heilbrigðisstarfsmanna á upplýsingum í sjúkraskrám.

Í bréfi sem umboðsmaður ritaði velferðarráðherra 14. ágúst 2012 óskaði hann þess að áður en hann tæki endanlega ákvörðun um hvort af athuguninni yrði yrðu honum veittar upplýsingar um hvort á vegum velferðarráðuneytisins stæði yfir eða væri fyrirhuguð vinna við frekari útfærslu á reglum eða fyrirkomulagi við eftirlit landlæknis.

Að ósk velferðarráðuneytisins var haldinn fundur um málið 22. ágúst 2012 og var þar m.a. rætt um efni þeirra kvartana og ábendinga sem hafa borist umboðsmanni og ýmist álitaefni tengd þeim. Hinn 20. september barst umboðsmanni síðan bréf ráðuneytisins þar sem því er lýst að embætti landlæknis hafi verið ritað bréf í tilefni erindinu og fundað hafi verið með fulltrúum embættisins í tvígang. Á þeim fundum hafi verið farið yfir fyrirkomulag lögbundins eftirlits landlæknis, farið yfir meðferð kvartana sem berast embættinu og rætt hvernig auka megi þekkingu starfsmanna þess á stjórnsýslureglum. Á fundunum hafi komið fram að vinna við gerð verkferla er varða eftirlit og afgreiðslu kvartana hafi hafist fyrr á árinu hjá landlækni. Af hálfu velferðarráðuneytisins hafi verið lögð áhersla á að þeirri vinnu yrði haldið áfram og óskað hafi verið eftir því að ráðuneytinu yrðu veittar frekari upplýsingar um gerð verkferla, breytingar á verklagi og umgjörð um eftirlitið. Í bréfinu kemur jafnframt fram að ráðuneytið hafi óskað eftir því við forsætisráðuneytið að Stjórnsýsluskóli Stjórnarráðsins standi fyrir námskeiði fyrir þá starfsmenn landlæknisembættisins sem koma helst að eftirliti og kvörtunarmálum þannig að þeir verði betur undirbúnir til að takast á við flókin og krefjandi verkefni. Slíkt námskeið sé nú fyrirhugað og jafnframt sé gert ráð fyrir að hluti starfsmanna ráðuneytisins taki þátt í námskeiðinu. Að lokum er tekið fram að velferðarráðuneytið taki ábendingum umboðsmanns alvarlega og muni fylgja því eftir að embætti landlæknis sinni og leysi úr einstökum málum í samræmi við stjórnsýslureglur.

Í ljósi viðbragða velferðarráðuneytisins við hefur umboðsmaður ákveðið að ekki sé tilefni til að aðhafast frekar að svo stöddu. Áfram verður þó fylgst með almennri þróun þessara mála, m.a. með hliðsjón af þeim ábendingum og kvörtunum sem berast, og ef tilefni gefst til verður á ný tekin afstaða til þess hvort ráðist verður í frumkvæðisathugun á stjórnsýslu landlæknis.