19. október 2012

Fjölþjóðlegur vinnufundur um gegnsæi og ábyrgð í opinberri stjórnsýslu

Dagana 12.-14. september 2012 var haldin í Stokkhólmi í Svíþjóð fjölþjóðlegur vinnufundur á vegum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um gegnsæi og ábyrgð í opinberri stjórnsýslu (Multi-country Workshop on Transparency and Accountability in Public Administration) með þeim ríkjum er eiga um þessar mundir í aðildarviðræðum við sambandið.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (European Commission) er ein helsta stofnun þess. Hlutverk hennar er m.a. að gæta sameiginlegra hagsmuna sambandsins, eiga frumkvæði að nýrri löggjöf og hafa eftirlit með beitingu sáttmála sambandsins og afleiddum reglum. Þá hefur framkvæmd og eftirlit með stækkun Evrópusambandsins komið í hlut eins stjórnarsviðs framkvæmdastjórnarinnar.

Umfjöllunarefni vinnufundarins í Stokkhólmi var einkum hlutverk og starfshættir umboðsmanna í viðkomandi ríkjum og aðgangur að upplýsingum ætluðum almenningi. Fundurinn fór fram í formi fyrirlestra og umræðna er lutu m.a. að mismunandi uppbyggingu embætta umboðsmanna, eftirliti þeirra með dómstólum ríkjanna, inntaki vandaðra stjórnsýsluhátta, fjárveitingum og sjálfstæði embættanna og loks að ýmsu er varðar starfsemi embættis sænska umboðsmannisins, en það hefur verið starfandi frá árinu 1809.

Vinnufundinum var ætlað að vera vettvangur fyrir ríkin til að deila með sér upplýsingum um embætti umboðsmanna þeirra og löggjöf um aðgang að upplýsingum ætluðum almenningi, auk þess að ýta undir frekara samstarf þeirra á meðal í þessum efnum. Umboðsmanni Alþingis var boðið að senda þrjá fulltrúa á vinnufundinn. Hann sóttu Berglind Bára Sigurjónsdóttir skrifstofustjóri, Særún María Gunnarsdóttir lögfræðingur og Vilhelmína Ósk Ólafsdóttir lögfræðingur.