19. október 2012

Heimsókn í Reykjanesbæ og á Keflavíkurflugvöll

Hinn 15. október 2012 heimsóttu starfsmenn umboðsmanns Alþingis Reykjanesbæ og kynntu sér starfsemi sveitarfélagsins og tiltekna þætti í starfsemi embættis lögreglustjórans á Suðurnesjum.

Starfsmenn kynntu sér sérstaklega málefni hælisleitenda og þá þjónustu sem þeir fá hjá Reykjanesbæ. Farið var í heimsókn á þjónustumiðstöð hælisleitenda að gistiheimilinu Fit og aðra dvalarstaði þeirra í fylgd starfsmanna fjölskyldu- og félagssviðs. Þar var rætt við hælisleitendur.

Starfsmenn umboðsmanns heimsóttu einnig Keflavíkurflugvöll og fengu þar kynningu starfsmanna lögreglustjórans á Suðurnesjum á verkferlum og viðbrögðum þegar til landsins koma einstaklingar án fullnægjandi heimilda til landgöngu.

Fundað var með starfsfólki nokkurra framkvæmdasviða Reykjanesbæjar, þ.e. fjölskyldu- og félagssviðs, fræðslusviðs, umhverfis- og skipulagssviðs og fjármála- og rekstrarsviðs. Ekki fór fram vettvangsathugun eða formleg úttekt á stjórnsýslu sveitarfélagsins heldur var ætlunin að umboðsmaður og starfsfólk hans gæti kynnt sér starfsemina með hliðsjón af þeirri stjórnsýslu sem þar fer fram og rætt við starfsfólk sviðanna, einkum um það hvernig almennt er staðið að afgreiðslu erinda sem þangað berast, þ.m.t. leiðbeiningum í svörum um kærumöguleika innan stjórnsýslunnar og heimildir til að óska eftir rökstuðningi. 

Að lokum var haldinn fundur með bæjarstjóra, bæjarritara og nokkrum af framkvæmdastjórum sveitarfélagsins. Þar var rætt almennt um stjórnsýslu sveitarfélagsins.