09. janúar 2013

Aldrei fleiri mál afgreidd – Kvörtunum fjölgaði um 3% - Tafir á lokaafgreiðslu mála

Á árinu 2012 bárust umboðsmanni Alþingis alls 534 kvartanir og fjölgaði því um 3% frá árinu 2011. Á síðasta ári afgreiddi umboðsmaður alls 502 mál og er það mesti fjöldi afgreiddra mála hjá embættinu á einu ári til þessa.

Auk þeirra 534 kvartana sem bárust tók umboðsmaður á árinu 2012 upp tvö mál til athugunar að eigin frumkvæði. Skráð mál á árinu voru því alls 536 eða að meðaltali 44 á mánuði. Þess má geta að í desember sl. lauk umboðsmaður athugun sinni á 45 málum en nýjar kvartanir þann mánuð voru 37. Auk þess að sinna formlegum kvörtunum leitar að jafnaði nokkur fjöldi fólks til skrifstofu umboðsmanns og fær þar leiðbeiningar og skýringar vegna starfshátta í stjórnsýslunni og um möguleika til að kvarta til umboðsmanns.

Árið 2011 bárust 519 kvartanir og níu mál voru tekin til athugunar að frumkvæði umboðsmanns. Skráð ný mál það ár voru því alls 528. Fjöldi nýrra mála var því svipaður og á árinu 2011 en á milli áranna 2010 og 2011 hafði kvörtunum fjölgað um 40% milli ára.

Þriðja árið í röð hefur umboðsmaður jafnframt afgreitt fleiri mál á árinu en áður eða alls 502 en flest höfðu þau verið árið 2011 eða 473 talsins og næstflest árið 2010, eða 398 talsins. Að meðaltali voru afgreidd mál á hverjum mánuði 2012 um 42. Hins vegar voru alls 191 mál til athugunar hjá umboðsmanni um áramótin. Um áramótin 2011-2012 voru þau 157 og árið 2010 - 2011 voru 102 mál til athugunar.

Eins og fram kom við umfjöllun um skýrslu umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2011 í nóvember sl. hefur mikil fjölgun nýrra mála síðustu tvö ár leitt til þess að tafir hafa orðið á afgreiðslu þeirra mála sem lokið er með álitum eða taka þarf að öðru leyti til ítarlegri athugunar. Fjárveitingar til embættisins hafa ekki leyft fjölgun starfsmanna til að mæta auknum málafjölda. Í skýrslunni var m.a. birt yfirlit sem sýndi breytingar á fjölda mála á hvern lögfræðing sem starfaði hjá umboðsmanni á árunum 2005 – 2012. Yfirlitið hefur nú verið uppfært að teknu tilliti til endanlegs málafjölda á árinu 2012.

 

Innkomin

Afgreidd

Fjöldi

Innkomin mál

Afgreidd mál

Ár

mál

mál

lögfræðinga

á lögfræðing

á lögfræðing

2005

314

325

6,6

47,6

49,2

2006

273

282

7

39,0

40,3

2007

308

265

6,7

46,0

39,6

2008

346

354

7,3

47,4

48,5

2009

338

319

7

48,3

45,6

2010

377

398

6,9

54,6

57,7

2011

528

479

6,4

82,5

74,8

2012

536

502

7,35

72,9

68,2

Umboðsmaður sagði m.a. í skýrslunni um þessa stöðu mála hjá embættinu:

„Nú er hins vegar ljóst að afgreiðslutími þeirra mála sem umboðsmaður telur þörf á að ljúka með álitum eða lengri bréfum að undangenginni ítarlegri athugun er orðinn lengri en svo að ég telji það ásættanlegt ef sú leið borgaranna að leita til umboðsmanns á að vera raunhæft og virkt úrræði fyrir þá. Þá er einnig veruleg hætta á að langur afgreiðslutími dragi almennt úr trausti á starfi umboðsmanns og athugasemdir hans m.a. um drátt á afgreiðslu mála hjá stjórnvöldum hljómi sem orðin tóm. Það gefur líka augaleið að áhrifamáttur embættis, sem ekki hefur neinar valdheimildir gagnvart stjórnvöldum heldur lætur aðeins uppi álit, byggist alfarið á því að borið sé traust til þess og þess einstaklings sem því gegnir. Einnig hef ég verulegar áhyggjur af því að umboðsmaður geti nánast ekki sinnt frumkvæðismálum eða vettvangsathugunum.“

Í framhaldi af þessu vakti umboðsmaður athygli Alþingis á því að embætti umboðsmanns starfaði á vegum Alþingis og það kæmi því í hlut þess m.a. við afgreiðslu fjárlaga að taka afstöðu til þess hvaða fjármunum ætti að verja til þessa starfs. Meðal þess sem taka þyrfti afstöðu til væri hvort veita ætti fjármunum til þess að fjölga starfsfólki til að sinna afgreiðslu mála. Umboðsmaður gerði einnig grein fyrir þeirri afstöðu sinni að ekki væri gerlegt að sinna að nokkru marki frumkvæðis- og vettvangsathugunum innan stjórnsýslunnar, svo sem í fangelsum og öðrum stofnunum þar sem fólk væri vistað, nema veittir yrðu fjármunir til að ráða sérstakan starfsmann til að vinna að því verkefni með umboðsmanni. Kostnaður við rekstur embættis umboðsmanns Alþingis á árinu 2012 var um 149 millj. króna og miðað við óbreyttan rekstur og starfsmannafjölda frá því ári er áætlað að kostnaður við embættið verði 161 millj. króna á árinu 2013. Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2013 var gerð tillaga um að fjárveitingar til embættisins yrðu 141,5 millj. króna. Að tillögu meiri hluta fjárlaganefndar var fjárveiting til reksturs embættisins aukin um 20 milljónir króna við afgreiðslu fjárlaga og verður því samtals 161,5 millj. á árinu 2013. Samkvæmt þessu verður því ekki unnt að fjölga starfsfólki embættisins á árinu 2013 til að sinna afgreiðslu mála og frumkvæðis- og vettvangsathugunum. Miðað við óbreyttan fjölda nýrra mála er ljóst að verulegt álag verður áfram á starfsfólki embættisins og bregðast þarf enn frekar við til að reyna að stytta afgreiðslutíma mála hjá embættinu. Umboðsmaður mun á næstunni gera hér á heimasíðunni grein fyrir ráðstöfunum sem gerðar verða í því efni.

Við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2013 ákvað Alþingi, að tillögu forsætisráðuneytisins, að bregðast við ábendingum umboðsmanns Alþingis um nauðsyn þess að unnið yrði að gerð fræðsluefnis fyrir starfsfólk stjórnsýslunnar, bæði hjá ríki og sveitarfélögum, um þær sérstöku reglur sem gilda um starfsemi stjórnsýslunnar og meðferð mála þar. Veittar voru 12 millj. króna á fjárlagalið umboðsmanns til að sinna þessu verkefni. Unnið verður sjálfstætt að því óháð afgreiðslu kvartana. Samantekt á þessu efni miðar að hluta til að því að gera þær úrlausnir sem umboðsmaður hefur sent frá sér þau 25 ár sem embættið hefur starfað betur aðgengilegar fyrir starfsfólk stjórnsýslunnar og aðra, auk þess að miðla áfram þeirri þekkingu og reynslu sem til staðar er hjá embættinu af reglum um starfshætti stjórnsýslunnar.