22. febrúar 2013

Gjaldtaka fyrir útgáfu nafnskírteina

Hinn 21. febrúar 2013 lauk umboðsmaður Alþingis athugun á lögmæti gjaldtöku Þjóðskrár Íslands fyrir útgáfu nafnskírteina.

Tildrög athugunarinnar var kvörtun föður stúlku sem hafði verið gert að greiða 3.300 kr. fyrir útgáfu nafnskírteinis. Þeirri athugun lauk þar sem málsaðilinn hafði ekki borið málið undir innanríkisráðherra. Umboðsmaður ákvað þó að leita eftir afstöðu Þjóðskrár Íslands til þess hvernig gjaldtakan samrýmdist lögum nr. 25/1965, um útgáfu og notkun nafnskírteina. Þar kemur fram að kostnaður við útgáfu nafnskírteina greiðist úr ríkissjóði nema einstaklingur óski eftir endurútgáfu skírteinis, s.s. ef það hefur týnst.

Í svarbréfi Þjóðskrár Íslands til umboðsmanns kom m.a. fram að Þjóðskrá hefði farið yfir verkferla sína og ákveðið að hætta að taka gjald fyrir útgáfu skírteinanna nema þegar um endurútgáfu er að ræða. Þá verði upplýsingum á heimasíðu stofnunarinnar breytt til samræmist við það verklag og sýslumenn sem koma að afgreiðslu skírteinanna upplýstir um breytinguna. Í ljósi þessara viðbragða taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að aðhafast frekar í málinu.