01. mars 2013

Settur umboðsmaður samhliða kjörnum umboðsmanni

Alþingi samþykkti með sérstakri fjárveitingu á fjárlögum þessa árs að fela umboðsmanni Alþingis að vinna að gerð fræðsluefnis fyrir starfsfólk stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga.

Þar verður fjallað um reglur sem gilda um starfshætti stjórnsýslunnar og þær sérstöku reglur sem gilda um meðferð mála þar.

Af þessu tilefni hefur forsætisnefnd Alþingis samþykkt tillögu kjörins umboðsmanns Alþingis, Tryggva Gunnarssonar, um að Róbert R. Spanó verði settur til að sinna störfum umboðsmanns Alþingis samhliða kjörnum umboðsmanni frá 1. mars til og með 31. ágúst í ár. Þetta er gert samkvæmt heimild í 3. mgr. 14. gr. laga um umboðsmann Alþingis en þar segir að ef kjörnum umboðsmanni eru falin sérstök tímabundin verkefni af hálfu Alþingis geti forsætisnefnd Alþingis, að beiðni kjörins umboðsmanns, samþykkt að setja annan mann til að sinna starfi umboðsmanns samhliða með kjörnum umboðsmanni. Þeir skulu ákveða verkaskiptingu sín í milli. Í samræmi við þetta mun Róbert sinna daglegum störfum umboðsmanns og afgreiðslu mála á ofangreindu tímabili en Tryggvi mun vinna að undirbúningi og samantekt á fræðsluefni fyrir starfsfólk stjórnsýslunnar. Tryggvi mun þó á næstunni ljúka afgreiðslu á ákveðnum málum sem eru á lokastigi áður en vinna við gerð fræðsluefnisins hefst. Nánari upplýsingar um verkaskiptingu milli Róberts og Tryggva verða birtar á vefsíðu embættis umboðsmanns.

Róbert R. Spanó er prófessor við lagadeild Háskóla Íslands og hefur undanfarið verið forseti deildarinnar. Róbert starfaði hjá umboðsmanni á árunum 1998 til 2004, lengst af sem aðstoðarmaður umboðsmanns. Hann var settur umboðsmaður Alþingis frá 1. janúar 2009 til 30. júní 2010 á meðan Tryggvi gegndi störfum í rannsóknarnefnd Alþingis. Þá hefur hann undanfarin ár aðstoðað umboðsmann við athugun einstakra mála og verið settur umboðsmaður í ákveðnum málum m.a. til þess að greiða fyrir afgreiðslu mála hjá umboðsmanni vegna mikillar fjölgunar nýrra kvartana.