24. apríl 2013

Upplýsingafundur með ríkissaksóknara um símahlustanir lögreglu og eftirlit

 

Umboðsmanni Alþingis hafa á undanförnu borist athugasemdir og ábendingar vegna símahlustana lögreglu og eftirlit með þeim. Samkvæmt lögum um meðferð sakamála hefur ríkissaksóknari eftirlit með því að lögreglustjórar sinni þeirri skyldu að tilkynna hlustunarþola um aðgerðina. Ríkissaksóknari hefur jafnframt gefið út almenn fyrirmæli til lögreglu og sérstaks saksóknara sem beinast að fleiri þáttum um símahlustanir lögreglu. Af þessu tilefni hefur umboðsmaður það til skoðunar hvort tilefni sé til að taka framkvæmd þessara mála til athugunar að eigin frumkvæði. Til að varpa ljósi á stöðu þessara mála var haldinn upplýsingafundur umboðsmanns Alþingis og ríkissaksóknara þriðjudaginn 23. apríl 2013. Þar var meðal annars rætt almennt um hvernig símahlustanir fara fram og með hvaða hætti ríkissaksóknari rækir eftirlit sitt með þeim, s.s með því að lögregla sinni skyldu sinni til að tilkynna hlustunarþolum um lok hlustunar og eyði hljóðupptökum og öðrum gögnum þegar þeirra er ekki lengur þörf eða þau hafa að geyma samtöl eða önnur samskipti sakbornings við verjanda. Farið var yfir þá vinnu sem unnin hefur verið hjá embætti ríkissaksóknara og fyrirhuguð er til að bæta bæta framkvæmd þessara mála og eftirlit. Umboðsmaður Alþingis hefur ekki tekið ákvörðun um hvort tilefni sé til frekari athugana af hans hálfu að svo stöddu, en mun óska eftir frekari upplýsingum um þróun eftirlits ríkissaksóknara með símahlustunum síðar á þessu ári.