07. maí 2013

Frumkvæðisathugun umboðsmanns Alþingis í fangelsinu Litla-Hrauni

Hinn 3. maí 2013 heimsótti umboðsmaður Alþingis fangelsið Litla-Hrauni.

Heimsóknin er liður í frumkvæðisathugun umboðsmanns sem stefnt er að því að ljúka fyrir 1. september næstkomandi. Við athugun sína mun umboðsmaður leggja mat á hvort aðstæður í fangelsinu, aðbúnaður fanga og verklag við ákvörðunartöku um réttarstöðu þeirra samrýmist ákvæðum stjórnarskrárinnar, Mannréttindasáttmála Evrópu, laga og reglugerða um fullnustu refsinga auk meginreglna stjórnsýsluréttar.

Í heimsókninni fundaði umboðsmaður með starfsfólki fangelsisins, heilbrigðisstarfsfólki sem sinnir heilbrigðisþjónustu í fangelsinu, fulltrúum frá fangelsismálstofnun og innanríkisráðuneytinu og Afstöðu, félagi fanga. Umboðsmaður og starfsfólk hans áttu jafnframt viðtöl við þá fanga sem óskuðu eftir því. Aðbúnaður og aðstaða í fangelsinu var skoðaður og verðlag í verslun fangelsisins kannað.

Á fundi umboðsmanns og fangelsismálayfirvalda voru heilbrigðismál fanga sérstaklega rædd, einkum geðheilbrigðismál og aðgengi fanga að geðheilbrigðisþjónustu, svo og þóknun, dagpeningar og fæðispeningar, upplýsingamiðlun til fanga og námsúrræði sem þeim standa til boða. Afstaða, félag fanga, og einstakir fangar komu jafnframt á framfæri ábendingum um atriði sem þeir telja að betur megi fara.

Umboðsmaður mun á næstu vikum afla, ef þörf krefur, frekari upplýsinga um stöðu mála í fangelsinu. Þá mun hann eftir atvikum eiga frekari fundi með fangelsisyfirvöldum.