16. maí 2013

Settur umboðsmaður Alþingis lýkur þremur málum á sviði fjármálaeftirlits

Hinn 20. mars 2013 lauk settur umboðsmaður Alþingis athugun á kvörtun fjármálafyrirtækis sem laut að ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um að leggja dagsektir á það vegna vanrækslu þess á reglubundnum skýrsluskilum.


Fjármálaeftirlitið hafði sent félaginu tilkynningu um mögulegar dagsektir, veitt því andmælafrest og síðar hafnað beiðni þess um frekari frest. Settur umboðsmaður taldi ekki forsendur til að telja að síðari tölvupóstssamskipti aðila hefðu verið með þeim hætti að þau hefðu skapað félaginu réttmætar væntingar um að því hefði verið veittur frekari frestur til skýrsluskila. Því væru ekki forsendur til þess að telja að Fjármálaeftirlitinu hefði skort heimild að lögum til að ákvarða félaginu dagsektir. Auk þess hefði eftirlitið að nokkru marki tekið tillit til sjónarmiða félagsins og afturkallað ákvörðun sína að hluta þar sem dagsektirnar voru lækkaðar. Settur umboðsmaður lauk því umfjöllun sína um málið.

Hinn 26. mars 2013 lauk settur umboðsmaður Alþingis athugun á kvörtun fjármálafyrirtækis sem var byggð á því að jafnræðis hefði ekki verið gætt þegar ráðuneytið hefði hafnað beiðni félagsins um víkjandi lán en veitt öðrum fjármálafyrirtækjum lánafyrirgreiðslur í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008. Settur umboðsmaður Alþingis benti á að umræddar lánveitingar hefðu byggst á heimildum sem leiddu beint af því sem á hefði verið byggt við samþykkt Alþingis í lögum og fjár- og fjáraukalögum. Svigrúm fjármálaráðherra til að ráðstafa umræddum fjármunum hefði því verið takmarkað og ákvarðanir hans að þessu leyti verið í samræmi við lög. Settur umboðsmaður taldi sig hvorki hafa forsendur til að álykta að brotið hefði verið gegn jafnræðisreglum í máli A hf. né gera athugasemdir við synjun fjármálaráðuneytisins á beiðni A hf. um víkjandi lán. Settur umboðsmaður lauk því umfjöllun sinni um málið en ákvað að rita fjármála- og efnahagsráðuneytinu bréf þar sem gerðar voru tilteknar athugasemdir við meðferð ráðuneytisins á rindum A hf.

Hinn 7. maí 2013 lauk settur umboðsmaður athugun á máli fjármálafyrirtækis sem hafði kvartað yfir innleiðingu Fjármálaeftirlitsins á svokölluðu ICAAP/SREP-ferli um eigið fé fjármálafyrirtækja. Taldi félagið að Fjármálaeftirlitið hefði ekki gætt jafnræðis og meðalhófs við innleiðinguna og að félaginu hafi verið veittur of skammur frestur til að setja fram aðgerðaráætlun í samræmi við lokaniðurstöðu eftirlitsins. Að fengnum skýringum Fjármálaeftirlitsins taldi settur umboðsmaður hvorki ástæðu til að draga þá ályktun að Fjármálaeftirlitið hefði brotið gegn jafnræðisreglum í innleiðingarferlinu né að meðalhófs hefði ekki verið gætt í máli A hf. Benti settur umboðsmaður meðal annars á að Fjármálaeftirlitinu væri falið nokkurt svigrúm til að meta hvaða kröfur væru gerðar til fyrirtækja að þessu leyti og að niðurstaða eftirlitsins í máli A hf. hefði verið byggð athugunum sem spönnuðu langt tímabil. Settur umboðsmaður taldi því ekki ástæðu til að gera athugasemdir við málsmeðferð Fjármálaeftirlitsins og lauk umfjöllun sína um málið.
 
Reifun á máli nr. 6578/2011.
Reifun á máli nr. 6584/2011.
Reifun á máli nr. 6585/2011.