26. maí 2013

Skrifstofa umboðsmanns flutt í Þórshamar

Skrifstofa umboðsmanns Alþingis hefur verið flutt í Þórshamar, Templarasundi  5 í Reykjavík.


Alþingi ákvað á síðasta ári að afhenda umboðsmanns Alþingis húsið Þórshamar við Templarasund 5 í Reykjavík undir skrifstofur og starfsemi embættisins. Húsið var byggt 1912 og hefur verið í eigu Alþingis frá árinu 1978.

Í tilefni af flutningunum hafa verið gerðar nauðsynlegar endurbætur á húsinu. Auk þess að búa starfsemi umboðsmanns aðstöðu þar hafa framkvæmdirnar miðað að því að færa innra útlit hússins til samræmis við byggingartíma þess og bæta aðgengi að því. Núverandi inngangur er frá Templarasundi um tröppur og því þarf að koma fyrir lyftu í húsinu og opna fyrir aðgengi að henni frá jarðhæð. Framkvæmdir í húsinu hafa reynst tímafrekari en áætlað var m.a. vegna þess að fjarlægja þurfti asbest úr risi hússins. Enn er því unnið að lausn á aðgengi að húsinu fyrir þá sem ekki geta nýtt sér inngang um tröppur. Miðað er við að breytingum á inngangi og móttökuaðstöðu  ljúki  fyrripart sumars.  Á meðan þessum framkvæmdum er ekki lokið eru þeir sem  óska eftir viðtölum eða eiga erindi við skrifstofu umboðsmanns, og geta ekki farið um tröppur að núverandi inngangi, beðnir um að hafa áður samband við skrifstofuna í síma 510 6700 eða með tölvupósti á netfangið: postur@umb.althingi.is og þeim verður leiðbeint um aðgengi að starfsemi umboðsmanns.

Skrifstofa  umboðsmanns Alþingis er eins og áður opin virka daga milli kl. 9 og 15. Síminn er 510 6700, fax 510 6701 og grænt númer 800 6450. Nýtt póstfang er: Umboðsmaður Alþingis, Þórshamri, Templarasundi 5, 150 Reykjavík.