08. júlí 2013

Umboðsmaður spyr um valdbeitingu lögreglu við handtöku

Í ljósi myndskeiðs sem birtist í fjölmiðum af valdbeitingu lögreglu við handtöku hefur settur umboðsmaður Alþingis ritað lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu fyrirspurnarbréf.


Í bréfinu er vísað til bréfs setts umboðsmanns 27. júní sl. til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu þar sem settur umboðsmaður óskaði upplýsinga og gagna um handtöku tveggja ólögráða stúlkna. Þá er vísað til þess að í fjölmiðlum hafi nú birst myndskeið sem sýnir valdbeitingu lögreglu við handtöku um liðna helgi. Í dag hafi lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu svo birt tilkynningu um að óskað hafi verið eftir rannsókn ríkissaksóknara á því atviki, sbr. 35. gr. lögreglulaga nr. 90/1996. Hvað sem líði því að ríkissaksóknari muni nú taka til rannsóknar háttsemi þess lögreglumanns, sem þarna hafi átt í hlut, telji settur umboðsmaður að þetta atvik auk atviksins, sem vísað sé til í bréfi hans til lögreglustjórans 27. júní sl., gefi tilefni til að umboðsmaður Alþingis skoða verklag lögreglu við handtöku í almennu ljósi og þá með það í huga hvers hinn almenni borgari megi vænta komi til þess að lögreglan hafi afskipti af honum og hvernig gætt er að meðalhófi við slík afskipti. Þá sé einkum horft til þeirra almennu verklagsreglna um handtöku sem lagðar eru til grundvallar í störfum lögreglu, þjálfun lögreglumanna í því efni og innri verkferla þegar atvik af þessu tagi koma upp og þá óháð rannsókn ríkissaksóknara á ætlaðri refsiverðri háttsemi tiltekinna lögreglumanna.

Bréf setts umboðsmanns Alþingis til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu er að öðru leyti svohljóðandi: 

„Með vísan til framangreinds óska ég þess, sbr. 5. og 7. gr. laga nr. 85/1997 um umboðsmann Alþingis að mér verði í fyrsta lagi afhent öll gögn sem liggja fyrir um atvikið um liðna helgi sem sést á umræddu myndskeiði. Ég óska í öðru lagi eftir upplýsingum um hvaða ferill innan embættisins fari í gang þegar atvik af þessu tagi koma upp. Í því samhengi óska ég eftir upplýsingum um hve oft á undanförnum fimm árum hafi komið upp atvik hjá embætti yðar þar sem reynir á álitaefni um hvort lögreglumenn hafi gengið of hart fram við handtöku og þá hvernig úr slíkum málum hafi verið leyst. Loks óska ég þess að í svari við erindi þessu, auk erindis míns frá 27. júní sl., verði tekin afstaða til þess hvort og þá hvernig aðgerðir lögreglumanna í þessum tilvikum hafi samrýmst þeim verklagsreglum sem lagðar eru til grundvallar í störfum embættis yðar. 

Ég óska þess að umbeðin gögn og svör berist mér ekki síðar en 24. júlí nk.“