30. júlí 2013

Sumarlokun Sjúkratrygginga Íslands og úrskurðarnefndar almannatrygginga

Settur umboðsmaður Alþingis hefur ritað velferðarráðuneytinu bréf vegna sumarlokunar hjá Sjúkratryggingum Íslands og úrskurðarnefnd almannatrygginga.


Bréf setts umboðsmanns er svohljóðandi:

„Það hefur vakið athygli setts umboðsmanns Alþingis að almenn afgreiðsla Sjúkratrygginga Íslands verður lokuð á tímabilinu 18. júlí til og með 7. ágúst nk. Samkvæmt upplýsingum á vefsíðu stofnunarinnar verður ekki veitt almenn þjónusta á þessum tíma, engar ákvarðanir um réttindi verða teknar og engar útborganir munu fara fram, þ.m.t. hvers konar endurgreiðslur á kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu og lyfja, afgreiðsla hjálpartækja og einnota vara, og útborganir vegna slysatrygginga, sjúkradagpeninga, ferðakostnaðar og sjúklingatryggingar.

Samkvæmt skilaboðum á símsvara úrskurðarnefndar almannatrygginga hefur skrifstofa þeirrar nefndar jafnframt verið lokuð vegna sumarleyfa starfsmanna frá 1. júlí og mun ekki opna aftur fyrr en 6. ágúst nk.

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skulu ákvarðanir í málum teknar svo fljótt sem unnt er. Almennt hefur því ekki verið fallist á að sumarleyfi starfsmanna réttlæti tafir á afgreiðslu þeirra mála sem krefjast skjótrar afgreiðslu heldur er talið að skipulagi og ráðstöfunum af því tilefni verði að haga þannig að fært sé að afgreiða mál sem varða mikilvæg málefni fólks innan hæfilegs tíma.

Þá er minnt á að samkvæmt 6. mgr. 8. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar skal úrskurðarnefnd almannatrygginga kveða upp úrskurð svo fljótt sem unnt er og eigi síðar en þremur mánuðum eftir að henni berst mál. Löggjafinn hefur því farið þá leið að mæla fyrir um afmarkaðan frest sem nefndin hefur til að afgreiða mál. Miða verður við að til grundvallar slíkri lagasetningu liggi tiltekið mat löggjafans, annars vegar á því að eðli viðkomandi máls sé þannig að rétt sé með tilliti til hagsmuna þeirra sem í hlut eiga að lögbinda afgreiðslutíma málanna og þá gjarnan við tiltölulega stuttan tíma og hins vegar að sá tími sem hann lögbindur sé nægjanlegur til afgreiðslu málanna miðað við þær upplýsingar sem gengið er út frá við lagasetninguna. Í því sambandi er bent á að úrskurðartími nefndarinnar var lengdur úr tveimur mánuðum í þrjá með 2. gr. laga nr. 120/2009. Af nefndaráliti meiri hluta félags- og tryggingamálanefndar um frumvarp sem varð að þeim lögum verður ekki annað ráðið en að því hafi verið hafnað að lengja úrskurðartímann frekar (sjá 138. löggjafarþing, 274. mál, þskj. 441.)

Settur umboðsmaður Alþingis hefur til skoðunar að taka málið til athugunar á grundvelli þeirrar heimildar sem honum er veitt í 5. gr. laga nr. 85/1997 um umboðsmann Alþingis. Af því tilefni og þar sem velferðarráðuneytið fer með yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildir gagnvart Sjúkratryggingum Íslands og úrskurðarnefnd almannatrygginga er þess óskað, sbr. 5. og 7. gr. laga nr. 85/1997, að ráðuneytið veiti settum umboðsmanni upplýsingar um hvort því hafi verið kunnugt um umræddar breytingar á afgreiðslutíma þessara stjórnvalda og hvers vegna þær voru taldar nauðsynlegar. Jafnframt er óskað eftir afstöðu ráðuneytisins til þess hvort og þá hvernig slíkir starfshættir samrýmast framangreindum sjónarmiðum sem um málshraða í stjórnsýslu og sjónarmiðum um vandaða stjórnsýsluhætti, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997. Telji ráðuneytið svo ekki vera er óskað upplýsinga um hvernig það hyggst bregðast við gagnvart viðkomandi stjórnvöldum.“