30. ágúst 2013

Umboðsmaður Alþingis lýkur athugun á tveimur málum um leiðbeinandi tilmæli stjórnvalda

Hinn 26. ágúst 2013 lauk umboðsmaður Alþingis athugun á tveimur málum sem lutu að leiðbeinandi tilmælum stjórnvalda.


Hinn 26. ágúst 2013 lauk umboðsmaður Alþingis athugun á tveimur málum sem lutu að leiðbeinandi tilmælum stjórnvalda. Var annars vegar um að ræða tilmæli Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins nr. 20/2010 vegna gengistryggingarákvæða í lánasamningum sem sett voru í kjölfar dóma Hæstaréttar í júní 2010. Hins vegar var um að ræða kvörtun vegna tilmæla Fjármálaeftirlitsins nr. 3/2010 um hæfi lykilstarfsmanna. Bæði málin lutu fyrst og fremst að því að umrædd stjórnvöld hefðu ekki haft heimildir til að setja slík tilmæli og krefjast aðgerða af hálfu eftirlitsskyldra aðila á þeim grundvelli.
 
Umboðsmaður Alþingis rakti í álitinu almenn sjónarmið og reglur sem stjórnvöld verða að hafa í huga þegar þau gefa út og birta almennar leiðbeiningar eða tilmæli. Benti umboðsmaður meðal annars á að slík tilmæli þyrftu að vera á verksviði og innan valdheimilda viðkomandi stjórnvalds. Til þess að hægt væri að gera beinar kröfur til borgaranna, eða lögaðila í sambærilegri stöðu, um tiltekna hegðun eða athafnir í formi tilmæla yrði í ljósi lögmætisreglunnar að vera hægt að leiða þær af viðkomandi lögum og þær mættu ekki ganga lengra en þær lagaheimildir kvæðu á um. Slík tilmæli þyrfti auk þess í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti að vera skýr og glögg og efnislega rétt og framsetning þeirra að varpa með skýrum hætti ljósi á eðli og réttaráhrif þeirra.

Niðurstaða umboðsmanns var sú að orðalag og framsetning framangreindra tilmæla Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins hafi hvorki að öllu leyti verið í samræmi við þau sjónarmið og reglur sem gilda um slík tilmæli né vandaða stjórnsýsluhætti. Beindi umboðsmaður þeim tilmælum til stofnananna að huga betur að þessum atriðum í framtíðarstörfum sínum sem og að Fjármálaeftirlitið endurskoðaði tilmæli nr. 3/2010 með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem rakin höfðu verið í álitinu.  Jafnframt taldi umboðsmaður rétt að koma því á framfæri við Alþingi að þess yrði gætt að hugtakið „leiðbeinandi tilmæli“ yrði í lögum aðeins notað yfir óskuldbindandi tilmæli stjórnvalda með hliðsjón af réttaröryggissjónarmiðum.

Reifun, mál nr. 6077/2010 og 6436/2011.