09. september 2013

Skýrsla umboðsmanns 2012 komin út

Skýrsluna má nálgast á pdf-skjali hér (1,09 Mb) eða í prentaðri útgáfu á skrifstofu umboðsmanns í Templarasundi 5, Reykjavík.


Skýrslan er samin í samræmi við 12. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, þar sem fram kemur að umboðsmaður skuli gefa Alþingi árlega skýrslu um starfsemi sína á liðnu almanaksári. Með því gefst Alþingi kostur á að fá innsýn í starf umboðsmanns og verkefni. Í skýrslunni eru birt stutt ágrip af álitum og öðrum völdum niðurstöðum frá árinu 2012 sem síðan er hægt að nálgast í heild sinni á heimasíðu embættisins. Þá er lögð áhersla á að greina frá viðbrögðum stjórnvalda við tilmælum sem umboðsmaður hefur beint til þeirra í tilefni af athugunum sínum. Á grundvelli þeirra upplýsinga er Alþingi betur í stakk búið til þess að taka afstöðu til þess hvort það telur tilefni til þess að fjalla frekar um þau viðbrögð.

Í I. kafla skýrslunnar er fjallað um störf umboðsmanns á árinu 2012. Á meðal þess sem umboðsmaður gerir þar að sérstöku umfjöllunarefni er málsmeðferðartími embættisins. Í því sambandi bendir hann á að mikil fjölgun kvartana á síðustu árum hafi leitt til aukins álags á starfsemi embættisins með þeim afleiðingum að afgreiðslutími þeirra mála sem taka þarf til ítarlegri athugunar og úrvinnslu hafi lengst svo mjög að það geti ekki talist ásættanlegt fyrir embættið. Þá hefur það einnig leitt til þess að umboðsmaður hefur ekki í sama mæli getað sinnt frumkvæðismálum og eftirliti sem og vettvangsathugunum. Bendir hann á að takmarkaðir möguleikar séu á að bæta úr þessum þáttum nema farin verði sú leið að vísa kvörtunum frá í auknum mæli en hann hafi talið rétt að fara varlega í þeim efnum. Umboðsmaður ítrekaði í þessu sambandi þau sjónarmið sem hann setti fram í skýrslu sinni fyrir árið 2011 um nauðsyn þess að Alþingi taki afstöðu til þess hvernig gera eigi honum kleift að sinna því lögboðna hlutverki sínu að gæta réttinda borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins með raunhæfum og virkum hætti. Í skýrslunni kemur jafnframt fram að flest þau mál sem berast umboðsmanni varði málshraða við afgreiðslu mála hjá stjórnvöldum. Í ljósi þess mannafla sem embættið hafi á að skipa og fjárveitinga til embættisins hafi umboðsmaður gert ákveðnar breytingar á verklagi við afgreiðslu erinda sem honum berast vegna tafa. Þar lýsir umboðsmaður að hann telji nú almennt rétt að þeir sem telji að tafir hafi orðið á meðferð erinda gangi í fyrsta kastið sjálfir eftir viðbrögðum stjórnvalda áður en umboðsmaður taki málið til meðferðar á grundvelli kvörtunar.

Uppbygging og efnistök skýrslunnar eru með svipuðum hætti og áður. Í I. hluta skýrslunnar er fjallað um fjölda mála sem hafa verið til meðferðar, helstu viðfangsefni á árinu, mál sem umboðsmaður hefur tekið til athugunar að eigin frumkvæði og erlent samstarf og fundi. Þar er einnig greint frá tilkynningum um meinbugi á lögum, almennum stjórnvaldsfyrirmælum eða -framkvæmd og ýmsum athugasemdum og ábendingum til stjórnvalda.  Í II. hluta skýrslunnar er að finna tölulegar upplýsingar og greiningu á skráðum og afgreiddum málum á árinu 2012. Þar er einnig fjallað um viðbrögð stjórnvalda við tilmælum umboðsmanns. Í III. hluta er að finna yfirlit yfir álit og aðrar niðurstöður á árinu 2012. Í IV. hluta er að finna upplýsingar vegna áður afgreiddra mála og í V. hluta er að lokum að finna skrá yfir þau mál sem hafa birst í skýrslum umboðsmanns Alþingis í númeraröð.