01. nóvember 2013

Ráðinn aðstoðarmaður umboðsmanns Alþingis

Hafsteinn Dan Kristjánsson, lögfræðingur, hefur verið ráðinn sérstakur aðstoðarmaður umboðsmanns Alþingis frá 1. nóvember 2013.


Hafsteinn Dan kom til starfa hjá embættinu samhliða laganámi árið 2007 og frá 2009 hefur hann verið í fullu starfi að undanskildum hléum vegna náms erlendis. Hann hefur lokið grunn- og meistaraprófi frá lagadeild Háskóla Íslands 2007 og 2009 og meistaraprófum frá bæði lagadeildum Oxford og Harvard háskóla 2012 og 2013. Hann er einnig aðjúnkt við lagadeild Háskóla Íslands þar sem hann hefur kennt í námskeiðum bæði á grunn- og meistarastigi, þ. á m. í almennri lögfræði og stjórnsýslurétti. Auk þess hefur hann m.a. skrifað ritrýndar fræðigreinar á sviði ríkisréttar, almennrar lögfræði og sakamálaréttarfars.

Aðstoðarmaður umboðsmanns vinnur náið með umboðsmanni að afgreiðslu þeirra mála sem umboðsmaður fjallar um og sinnir öðrum störfum sem umboðsmaður felur honum. Ráðning í starf aðstoðarmanns nú er liður í því að gera ákveðnar breytingar á starfsháttum hjá embættinu til þess að greiða fyrir og hraða afgreiðslu mála. Vegna samdráttar í fjárveitingum til embættisins hefur enginn gegnt starfi aðstoðarmanns umboðsmanns frá mars 2009.  Fyrri aðstoðarmenn umboðsmanns Alþingis hafa verið Tryggvi Gunnarsson, Páll Hreinsson, Róbert R. Spanó og Kjartan Bjarni Björgvinsson.