07. nóvember 2013

Máli stundakennara við Háskóla Íslands vísað til stjórnvalda.

Umboðsmaður Alþingis hefur lokið athugun á kvörtun sem lýtur að kjörum og réttindum stundakennara við Háskóla Íslands. Athugun umboðsmanns lauk með bréfi sem hann sendi frá sér 31. október sl.


Félag stundakennara við Háskóla Íslands, Hagstund, leitaði til umboðsmanns og kvartað yfir því að háskólinn mismunaði stundakennurum, þ.e. þeim sem sinntu verulega mikilli kennslu við skólann, með því að styðjast við ráðningarform um tímavinnu stundakennara. Með þessu væri réttarstaða þeirra stundakennara sem í hlut ættu mjög takmörkuð og um margt væri óljóst hvað varðaði réttindi þeirra og skyldur, þ.m.t. um rétt til aðildar að stéttarfélagi. Háskólinn ákvæði einhliða kaup og kjör þeirra og óljóst væri hvaða forsendur væru lagðar til grundvallar þeim ákvörðunum. Meðal stundakennara væri hópur fólks sem sæi um verulega mikla kennslu á meðan aðrir sinntu kennslu í minna mæli og væri gerður greinarmunur á þessum hópum. Þá taldi félagið að ósamræmis gætti milli deilda og sviða háskólans í tengslum við skilgreiningar á námskeiðum með tilliti til greiðslu fyrir námsmat og að erfitt gæti verið fyrir félagsmenn að nálgast upplýsingar um hvað byggi þar að baki.

Í tilefni af kvörtun Hagstundar ritaði umboðsmaður Háskóla Íslands bréf þar sem kvörtun félagsins var rakin sem og þær lagareglur sem á gæti reynt í málinu. Óskaði umboðsmaður eftir svörum frá háskólanum við tilteknum spurningum, m.a. um stöðu og starfskjör stundakennara við skólann, til að reyna að varpa ljósi á það umhverfi sem stundakennurum væri búið. Eftir að svör bárust frá háskólanum tók umboðsmaður þá ákvörðun að ljúka málinu af sinni hálfu. Taldi hann ljóst að ágreiningur væri uppi milli félagsins og háskólans um hvort réttindi stundakennara væru virt og hvort kjör þeirra væru ákvörðuð með eðlilegum hætti. Umboðsmaður tók fram að hann teldi sig ekki í stakk búinn að halda athugun sinni á málinu áfram miðað við eðli þess ágreinings sem væri uppi og hversu víðtækur hann væri. Hann taldi þannig ekki unnt að leggja mat á einstök mál og þá hvort það kynni að vera brotið á rétti einstakra stundakennara. Staða þeirra væri misjöfn og að einhverju leyti kynnu að gilda mismunandi lög og reglur um stöðu þeirra. Félagsmenn Hagstundar væru eftir því sem hann kæmist næst yfir 2000 talsins og væri staða þeirra talsvert ólík innbyrðis. Auk þess tók hann fram að af gögnum málsins yrði ráðið að ágreiningur lyti að einhverju leyti einnig að staðreyndum málsins og atriðum eins og hvernig stundakennurum væru kynnt réttindi sín og staða þeirra skýrð m.t.t. mismunandi stöðu þess hóps.

Í ljósi þess að mál félagsins varðar ágreining um kjör og réttindi fjölmarga einstaklinga, sem starfa fyrir hið opinbera, og þess að svör stjórnvalda við fyrirspurnum hans höfðu að áliti hans ekki varpað nægilega skýru ljósi á réttarstöðu þeirra taldi hann þó rétt að beina því til Háskóla Íslands, mennta- og menningarmálaráðuneytisins, sem fer með mál er varða háskóla, og fjármála- og efnahagsráðuneytisins, sem fer með starfsmannamál ríkisins, að framangreind stjórnvöld tækju afstöðu til þess hvort fyrirkomulag varðandi störf og réttindi stundakennara, eða eftir atvikum ákveðins hóps þeirra, væri viðunandi og lögum og reglum samkvæmt. Ef þau teldu að svo væri ekki, óskaði hann þess að verða upplýstur um hvort þau hygðust hlutast til um að koma málum stundakennara í lögmætt og eðlilegt horf. Var þess óskað að stjórnvöld upplýstu umboðsmann eigi síðar en 31. desember nk. um viðbrögð þeirra vegna málsins og þá hvort þau hygðust grípa til einhverra aðgerða af því tilefni.