15. nóvember 2013

Eftirlit með Landspítala háskólasjúkrahúsi

Umboðsmaður hefur í dag sent landlækni og heilbrigðisráðherra bréf þar sem hann beinir tilteknum spurningum til þeirra er lúta að eftirliti með faglegum lágmarkskröfum í heilbrigðisþjónustu á Landspítala háskólasjúkrahúsi.


Ástæða þess að umboðsmaður hefur óskað eftir tilteknum upplýsingum um þessi mál er svo hann geti tekið ákvörðun um hvort hann telji tilefni til þess að taka að eigin frumkvæði framkvæmd eftirlits með mönnun, húsnæði, aðstöðu, tækjum og búnaði til reksturs Landspítala Háskólasjúkrahúss til athugunar með það í huga að kanna hvort hún sé fullnægjandi og í samræmi við lög og gildandi reglur.

Í bréfunum tekur hann m.a. fram að það megi ráða af þeim lögum sem gilda um þessi stjórnvöld að löggjafinn hafi ætlað ráðherra sem æðsta stjórnvaldi á viðkomandi stjórnsýslusviði að viðhafa ákveðna stefnumótun og útfæra hana m.a. með nánari fyrirmælum í reglugerðum. Slík stefnumótun komi þá oft í stað beinna ákvæða í lögum um rétt borgaranna til þjónustu eða fyrirgreiðslu. Síðan er sérhæfðu stjórnvaldi falið eftirlit með því að þjónusta við borgarana og úrlausn í málum þeirra sé í samræmi við lög og skyldur þjónustuveitanda. Þrátt fyrir að ráðherra fari þannig með stefnumótunarhlutverk fari hann líka með ákveðnar eftirlits- og yfirstjórnunarskyldur. Liður í athugun umboðsmanns er að kanna hvort sú útfærsla sem fram kemur í þeim reglugerðum sem ráðherra hefur sett um faglegar lágmarkskröfur til reksturs heilbrigðisþjónustu af því tagi sem veitt er á Landspítalanum sé fullnægjandi grundvöllur til að skipuleggja og framkvæma umrætt eftirlit.

Umboðsmaður hefur óskað eftir því að svör ásamt gögnum berist honum eigi síðar en 15. desember nk.

Bréf umboðsmanns má finna hér. (110 Kb)