08. janúar 2014

Samræmi og jafnræði við ákvarðanir stjórnvalda

Hlutverk umboðsmanns Alþingis er m.a. að gæta þess að jafnræði sé í heiðri haft í stjórnsýslunni.

Umboðsmanni hafa af og til borist kvartanir og ábendingar á liðnum árum þar sem höfð eru uppi sjónarmið um að stjórnvöld hafi ekki gætt jafnræðis við ákvarðanir sínar um málefni borgaranna. Þar á meðal eru mál sem lúta að starfsmönnum ríkisins og starfskjörum þeirra. Þar má nefna sem dæmi mál sem lúta að breytingum á launakjörum, t.d. almenna niðurfærslu launa og síðar fráhvarf frá henni, framkvæmd starfsloka, gerð starfslokasamninga, veitingu námsleyfa, framlög og þátttöku í kostnaði við sameiginlegar ferðir starfsmanna og samkomur þeirra og gjafir til starfsmanna, t.d. á jólum. Þeir sem leitað hafa til umboðsmanns vegna álitamála þar sem reynir á jafnræði á þessum sviðum vísa gjarnan til þess að í hlut eigi einn og sami vinnuveitandinn, ríkið.

Athugun umboðsmanns beinist í þessum tilvikum fyrst og fremst að því hvort þær ákvarðanir stjórnvalda sem kvartað er yfir hafi verið í samræmi við þær jafnræðisreglur sem á reynir hverju sinni og þá einkum 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá reynir á hvort verið sé að bera saman tilvik sem eru sambærileg í lagalegu tilliti og hvort málefnalegar ástæður hafi legið til grundvallar mismunandi niðurstöðu í þeim málum sem borin eru saman. Sá mælikvarði að málin séu sambærileg í lagalegu tilliti leiðir í vissum tilvikum til þess að lögfest frávik frá þeim lagareglum sem almennt gilda, eða val hlutaðeigandi stjórnvalda á að beita mismunandi lagareglum við úrlausn mála sem eru í eðli sínu sambærileg, valda því að umboðsmaður getur ekki staðhæft að brotið hafi verið gegn jafnræðisreglu þegar reynir á samanburð á milli slíkra tilvika.

Hinn 10. desember sl. lauk umboðsmaður máli þar sem reyndi á sjónarmið um jafnræði við ákvarðanir stjórnvalda í málefnum starfsmanna ríkisins. Fyrrverandi skrifstofustjórar í félags- og tryggingamálaráðuneytinu og heilbrigðisráðuneytinu höfðu leitað til umboðsmanns og kvartað yfir því að þeim hafi ekki staðið til boða sambærileg starfslok og starfskjör, þ.m.t. að halda starfstitlum sínum, eins og raunin varð í tilvikum skrifstofustjóra í þeim ráðuneytum sem voru síðar sameinuð í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Umboðsmaður benti á að sérstök tímabundin ákvæði í lögum sem lutu að sameiningu ráðuneyta í fyrra tilvikinu og val stjórnenda ráðuneytanna í síðara tilvikinu á því hvaða ákvæðum laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, var beitt hafi leitt til þess að þau tilvik sem þarna voru borin saman og ákvarðanir yrðu ekki talin fela í sér brot á jafnræðisreglu stjórnsýslulaga.

Hér má finna forsendur niðurstöðu umboðsmanns í bréfi hans til fyrrverandi skrifstofustjóra ráðuneytanna.

Umboðsmaður sá hins vegar ástæðu til þess að vekja athygli forsætisráðuneytisins og fjármála- og efnahagsráðuneytisins á málinu og koma þeirri ábendingu á framfæri við þessi ráðuneyti að betur yrði hugað að því framvegis að gæta samræmis og jafnræðis í slíkum málum. Liður í því gætu verið skýrari reglur um þessi mál og meira samræmi. Slíkt væri síðan til þess fallið að auðvelda þeim sem í hlut eiga hverju sinni að átta sig á því hvort úrlausn mála hafi verið í samræmi við jafnræðisreglur. Var þess óskað að ráðuneytin upplýstu umboðsmann eigi síðar en 1. mars 2014 hvort ofangreind ábending hefði orðið tilefni einhverra viðbragða af þeirra hálfu.

Bréf umboðsmanns til forsætisráðuneytisins og fjármála- og efnahagsráðuneytisins má finna hér.