07. mars 2014

Máli lokið á sviði fjarskipta- og póstmála.

Umboðsmaður Alþingis hefur sent úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála og Póst- og fjarskiptastofnun bréf þar sem ábendingum er lúta að starfsemi þessara stjórnvalda er komið á framfæri auk þess sem fyrirspurn í tengslum við sama mál var beint til innanríkisráðherra.


Bréf umboðsmanns til þessara stjórnvalda eru rituð í framhaldi af athugunum hans á kvörtun fyrirtækisins A sem hafði gert athugasemdir við úrskurð úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála. Þar var fjallað um ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar er laut að viðskiptaskilmálum og gjaldskrá fyrirtækisins B. Annars vegar voru þar gerðar athugasemdir við að Póst- og fjarskiptastofnun hefði með ákvörðun sinni farið út fyrir þær heimildir sem henni eru fengnar með 16. gr. laga nr. 19/2002, um póstþjónustu. Hins vegar voru gerðar athugasemdir við orðalag og framsetningu umfjöllunar stofnunarinnar um A.

Í bréfi umboðsmanns til úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála kom fram að hann teldi ekki hægt að draga aðra ályktun af skýringum nefndarinnar en að hún hafi lagt til grundvallar í málinu að umrædd ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar hafi falið í sér bindandi niðurstöðu um efni viðskiptaskilmála og gjaldskrár fyrirtækisins B og það því ekki haft svigrúm til að bregðast við ákvörðuninni. Í ljósi þess að ekki yrði séð að stofnunin hefði slíka heimild í lögum féllst umboðsmaður ekki á að niðurstaða úrskurðarnefndarinnar um lagagrundvöll og efni ákvörðunar Póst- og fjarskiptastofnunar í málinu hafi verið í samræmi við 16. gr. laga nr. 19/2002. Þar sem félaginu A hafi ekki verið tryggt ákvörðunarvald innan marka laga um þessi atriði sem reyndi á í málinu taldi umboðsmaður ekki grundvöll til að setja fram bein tilmæli til úrskurðarnefndarinnar um að nefndin tæki málið til meðferðar að nýju heldur yrði það að vera ákvörðun nefndarinnar.

Í bréfi sínu til Póst- og fjarskiptastofnunar benti umboðsmaður jafnframt á að þegar stjórnvöld setja fram niðurstöður sínar og ályktanir í bréfum eða ákvörðunum til borgaranna beri þeim að gæta að því að framsetning þeirra sé hófleg og sanngjörn og ályktanir og upplýsingar settar fram af yfirvegun í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti. Taldi umboðsmaður að á hafi skort að vönduðum stjórnsýsluháttum hafi verið fylgt í umfjöllun stofnunarinnar um málefni fyrirtækisins A. Kom hann þeirri ábendingu á framfæri við stofnunina að gæta þess framvegis betur í sambærilegum málum að fylgja vönduðum stjórnsýsluháttum.

Að lokum óskaði umboðsmaður eftir upplýsingum frá innanríkisráðherra um það hvernig gætt hefði verið að því skilyrði 1. mgr. 13. gr. laga nr. 69/2003, um Póst- og fjarskiptastofnun, að formaður og varaformaður úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála skulu fullnægja hæfisskilyrðum hæstaréttardómara. Var óskað eftir að upplýsingar um þessi atriði yrðu send honum eigi síðar en 14. mars nk. Að fengnum þeim upplýsingum tæki hann afstöðu til þess hvort tilefni væri til þess að hann tæki þetta atriði til frekari athugunar á grundvelli 5. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.