03. júlí 2014

Fjöldi kvartana og afgreiðsla mála 2014

Hinn 30. júní sl. höfðu umboðsmanni Alþingis alls borist 240 kvartanir á árinu og er það 10% fjölgun frá fyrra ári.


Á sama tíma var búið að afgreiða 272 mál eða 56% fleiri mál heldur en afgreidd voru á sama tíma árið 2013. Þess skal getið að fleiri mál voru að jafnaði afgreidd mánaðarlega síðari hluta árs 2013 og meðaltal afgreiddra mála á mánuði er nú það sama og allt árið 2013 eða 45.  Skráð mál á árinu 2013 voru 494 og afgreidd mál 543 en hliðstæðar tölur fyrir árið 2012 voru 536 og 502.

Það hefur áður komið fram í skýrslum umboðsmanns til Alþingis og fréttum að embættið hefur allt frá árinu 2011 þurft að takast á við mikla fjölgun nýrra kvartana en það ár fjölgaði málunum um 40% frá árinu 2010. Um 500 kvartanir hafa borist umboðsmanni árlega frá þeim tíma en á sama tíma hafa ekki orðið breytingar á fjölda starfsmanna. Tekið skal fram að auk þess að sinna málum vegna kvartana og þeim frumkvæðismálum sem tök eru á hverju sinni leita jafnan fjölmargir til skrifstofu umboðsmanns með fyrirspurnir og kemur það í hlut starfsmanna að svara þeim. Til að bregðast við þessari stöðu voru í upphafi árs gerðar ákveðnar skipulagsbreytingar á móttöku nýrra kvartana sem miða að því að hraða enn afgreiðslu þeirra mála sem vísað er frá þar sem þau uppfylla ekki skilyrði til þess að umboðsmaður geti fjallað um þau eða ekki er talið nægjanlegt tilefni til þess að umboðsmaður taki málið til frekari athugunar eftir frumathugun þess. Miðað er við að niðurstaða um hvort kvörtun verður tekin til frekari athugunar liggi nú að jafnaði fyrir innan tveggja til fjögurra vikna. En frávik kunna að verða ef óska þarf eftir gögnum málsins. Þessi breyting hefur þegar skilað sér í fjölgun afgreiddra mála á þessu ári.

Það hefur ítrekað komið fram af hálfu umboðsmanns að þrátt fyrir þessa breytingu  er embættið enn að glíma við tvíþættan vanda. Annars vegar er afgreiðslutími enn of langur í þeim tilvikum þegar um er að ræða mál þar sem óskað er eftir skýringum frá stjórnvöldum og þau eru tekin til ítarlegri athugunar og lokið með áliti eða lengri lokabréfum. Í eftirfarandi töflu er yfirlit yfir innkomin mál skipt eftir tímabilum á árunum 2012 til og með 30 . júní 2014 og afgreiðslu þeirra eða stöðu að öðru leyti. Af þessu yfirliti má sjá að af þeim fimm málum sem bárust umboðsmanni fyrir 1. júlí 2013 og enn eru óafgreidd er í tveimur tilvikum beðið eftir skýringum og gögnum frá stjórnvöldum en í hinum bárust slík gögn á þessu ári og lokaniðurstaða í þeim mun liggja fyrir á næstunni. Miðað við þetta verður um ár liðið frá því að kvartanir vegna þeirra mála sem koma til afgreiðslu að loknum sumarleyfum bárust en eins og sjá má á yfirlitinu er í nokkrum tilvikum beðið eftir skýringum stjórnvalda eða viðbrögðum aðila.  Það er ljóst að víða er álag í stjórnsýslunni og hefur það leitt til þess að óskum um lengri frest af hálfu stjórnvalda til að svara fyrirspurnum umboðsmanns hefur fjölgað.  Það hefur verið stefna umboðsmanns að málum vegna kvartana sé lokið innan sex mánaða frá því kvörtun barst en það er vissulega háð því að svör berist sem fyrst frá stjórnvöldum og núverandi fjöldi  starfsmanna hefur ekki dugað til að ná þessu markmiði að því er varðar þau mál þarfnast hafa ítarlegri meðferðar og úrvinnslu.

Staða innkominna kvartana m.v. 30. júní 2014:

 

Hinn vandinn í starfsemi umboðsmanns í kjölfar mikillar fjölgunar nýrra kvartana er að ekki hefur verið unnt að sinna frumkvæðismálum eða vettvangsathugunum nema í mjög litlum mæli. Þetta á bæði við um eldri mál sem umboðsmaður hafði tekið upp og ný tilefni. Vegna þessa bíða 15 mál afgreiðslu, þar af tvö sem tengjast kvörtunum sem bárust fyrir árið 2012 og miðað hefur verið við að ljúka samhliða almennri umfjöllun um tiltekna þætti í starfsemi viðkomandi stjórnvalda. Í vetur hafa verið lögð drög að því að ljúka afgreiðslu þeirra athugana sem beðið hafa síðustu ár og vonast er til þess að unnt verði að birta þær á næstunni.

Umboðsmaður Alþingis hefur gert Alþingi grein fyrir því að úr þessum vanda í starfsemi umboðsmanns verði ekki bætt að óbreyttum fjölda kvartana nema sérstök fjárveiting fáist til að sinna þessum þætti. Hefur umboðsmaður sérstaklega vakið athygli á nauðsyn þess að embættinu verði gert kleift að sinna betur eftirliti með starfsemi þeirra stofnana þar sem frelsissviptir einstaklingar dvelja eða aðrir sem geta síður fært fram kvartanir og athugasemdir um aðbúnað og réttindi. Það er ákvörðun fjárveitingavaldsins hvaða fjármunum er veitt til embættis umboðsmanns og þar með til að sinna frumkvæðismálum og almennum athugunum á starfsháttum stjórnvalda. Eins og skýrt var af hálfu umboðsmanns við umfjöllun Alþingis um skýrslu embættisins fyrir árið 2012 hefur verið lögð áhersla á að nýta núverandi fjárveitingar til að sinna afgreiðslu á kvörtunum eins fljótt og kostur er.