21. október 2014

Ráðstefna - 20 ár frá lögfestingu Mannréttindasáttmála Evrópu

Í ár eru liðin 20 ár frá lögfestingu Mannréttindasáttmála Evrópu á Íslandi. Af því tilefni efna Mannréttindastofnun Háskóla Íslands og embætti umboðsmanns Alþingis til ráðstefnu föstudaginn 24. október nk. þar sem m.a. verður rætt um áhrif lögfestingar sáttmálans á dómaframkvæmd, stjórnsýslu, störf lögmanna og störf umboðsmanns.


Hlutverk umboðsmanns er að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Hann skal gæta þess að jafnræði sé í heiðri haft í stjórnsýslunni og að hún fari að öðru leyti fram í samræmi við lög, vandaða stjórnsýsluhætti og siðareglur settar á grundvelli laga um Stjórnarráð Íslands og laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Mannréttindareglur eru hluti af þeim reglum sem stjórnsýslunni ber að fylgja í störfum sínum og því fellur undir hlutverk umboðsmanns að hafa eftirlit með því að stjórnvöld gæti þeirrar skyldu sinnar. Það, ásamt bakgrunni dr. Gauks Jörundssonar, sem var fyrsti kjörni umboðsmaður Alþingis, hefur alla tíð haft mótandi áhrif á starfsemi embættisins.

Gaukur Jörundsson sat í Mannréttindanefnd Evrópu á árunum 1974 til 1999. Í lok fyrsta starfsárs Gauks sem umboðsmaður árið 1988 skrifaði hann forsætisráðherra og forsetum Alþingis bréf þar sem hann vakti athygli á ófullkomnum ákvæðum til verndar mannréttindum í íslenskum lögum. Hann benti m.a. á að í íslensku stjórnarskrána vantaði almenn ákvæði um veigamikil mannréttindi, að ákvæði hennar um félagsleg mannréttindi væru fábrotin og að mörg mannréttindaákvæði hennar væru ófullkomin af ýmsum ástæðum. Í bréfinu benti hann einnig á að íslensk lög gengu að ýmsu leyti skemmra í vernd mannréttinda en ýmsir alþjóðasamningar um mannréttindi sem Ísland væri aðili að og nefndi þar m.a. Mannréttindasáttmála Evrópu. Hann taldi þetta geta valdið vanda í lagaframkvæmd hér á landi og jafnframt geta orðið til þess að íslenska ríkið yrði dregið til ábyrgðar fyrir þeim alþjóðastofnunum sem ætlað væri að framfylgja samningunum.  Gaukur taldi að úrbætur gætu einkum orðið með tvennum hætti. Í fyrsta lagi með endurskoðun mannréttindaákvæða íslensku stjórnarskrárinnar. Hins vegar taldi hann mjög koma til greina að umræddir mannréttindasáttmálar eða hlutar þeirra yrðu teknir í íslensk lög. Með þessu hafði Gaukur sem umboðsmaður Alþingis visst frumkvæði að lögfestingu Mannréttindasáttmála Evrópu árið 1994 og endurskoðun mannréttindakafla íslensku stjórnarskrárinnar árið 1995.

Gaukur Jörundsson var umboðsmaður Alþingis frá árinu 1988 þar til hann var kjörinn dómari við Mannréttindadómstól Evrópu árið 1998. Því embætti gegndi hann til ársins 2004.  Árið 2013 var Róbert R. Spanó kjörinn dómari við dómstólinn. Róbert starfaði um árabil hjá umboðsmanni Alþingis, lengst sem aðstoðarmaður umboðsmanns, og hann var tvívegis settur umboðsmaður Alþingis samhliða kjörnum umboðsmanni. Einnig hefur hann verið settur umboðsmaður í einstökum málum. Hann er því annar dómarinn sem situr fyrir Íslands hönd í dómstólnum sem kemur úr röðum þeirra sem hafa gegnt starfi umboðsmanns Alþingis.

Nánari upplýsingar um ráðstefnuna er að finna á heimasíðu Mannréttindastofnunar HÍ.