04. september 2014

Afgreiðsla mála í júlí og ágúst 2014

Í lok ágúst höfðu umboðsmanni Alþingis borist alls 314 kvartanir frá áramótum.


Hann hafði á sama tíma tekið tvö mál til athugunar að eigin frumkvæði.

Kvörtunum hefur fækkað um rúm 3% milli ára. Á sama tíma árið 2013 hafði umboðsmaður tekið upp eitt mál að eigin frumkvæði. Heildarfjöldi afgreiddra mála á þessu ári var í lok ágúst 357 en 258 á sama tíma árið 2013.  

Í júlí 2014 lauk umboðsmaður athugun sinni á 47 málum. Nýjar kvartanir í mánuðinum voru  41 talsins. Í ágúst 2014 lauk umboðsmaður athugun sinni á 39 málum en nýjar kvartanir voru 34. Um mánaðamótin ágúst-september voru alls 101 mál til athugunar hjá umboðsmanni. Til samanburðar má geta þess að á sama tíma í fyrra voru 259 mál til athugunar.

Af 101 máli sem voru til athugunar hjá umboðsmanni um síðustu mánaðamót voru 14 frumkvæðismál og tvö vegna kvartana sem bárust fyrir árið 2012 en miðað er við að þeim verði lokið í tengslum við mál sem umboðsmaður fjallar um að eigin frumkvæði. Fjöldi kvartana síðustu þrjú ár hefur leitt til þess að ekki hefur verið unnt að ljúka afgreiðslu þessara mála en stefnt er að því að ljúka stærstum hluta þeirra á þessu ári.

Um síðustu áramót var tekið upp breytt verklag við athugun á nýjum kvörtunum. Er miðað við að sá sem ber fram kvörtun hafi að jafnaði fengið niðurstöðu um það hvort umboðsmaður tekur kvörtunina til frekari athugunar innan tveggja til fjögurra vikna frá því að kvörtun barst. Sá tími getur þó orðið lengri ef afla þarf gagna frá stjórnvöldum vegna málsins. Þá er miðað við að endanlegar lyktir þeirra mála sem umboðsmaður tekur til frekari athugunar og lýkur t.d. með áliti liggi fyrir eigi síðar en sex mánuðum frá því að síðustu skýringar eða athugasemdir berast umboðsmanni. Af þeim málum sem fram koma í neðangreindu yfirliti eru átta mál sem komin eru fram yfir þennan tíma og gert er ráð fyrir að niðurstaða í þeim liggi fyrir í þessum mánuði. Sú áhersla umboðsmanns að hraða afgreiðslu kvartana hefur þegar skilað árangri í fjölgun afgreiddra mála á þessu ári þrátt fyrir óbreyttan fjölda starfsmanna. Þetta hefur komið niður á vinnu við frumkvæðismál og á verkefnum sem umboðsmaður og starfsmenn hans þurfa að sinna við samantektir á afgreiðslum mála, birtingu efnis á heimasíðu og annarri upplýsingagjöf um starfsemi embættisins.

Staða innkominna kvartana m.v. 31. ágúst 2014: