23. janúar 2015

Frumkvæðisathugun á samskiptum lokið

Umboðsmaður Alþingis hefur lokið frumkvæðisathugun sinni á samskiptum innanríkisráðherra við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu um rannsókn lögreglunnar á meðferð trúnaðarupplýsinga úr innanríkisráðuneytinu.


Um er að ræða samskipti þeirra sem gegndu þesssum embættum í lok árs 2013 og fram eftir árinu 2014. Umboðsmaður hefur lokið athuguninni með áliti sem er birt hér ásamt samantekt á helstu niðurstöðum. Hér má enn fremur sjá efnisyfirlit yfir álitið.

Álitið hefur verið sent bæði núverandi og fyrrverandi innanríkisráðherra. Vegna athugunar sinnar á frumkvæðismálinu hefur umboðsmaður einnig sent forsætisráðherra bréf þar sem komið er á framfæri ábendingum um  framkvæmd og grundvöll siðareglna fyrir ráðherra, reglur um skráningu formlegra samskipta og funda í Stjórnarráði Íslands og hlutverk og stöðu aðstoðarmanna ráðherra. Þær lúta einkum að því að þörf sé á að kanna betur almenna framkvæmd þessara reglna og eftir atvikum hvort þær megi gera skýrari. Bréfið er birt hér. Forsætisráðherra hefur jafnframt verið sent afrit af áliti umboðsmanns í frumkvæðismálinu.

Þar sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hafði lýst því yfir að hún hefði ákveðið að bíða með boðaða umfjöllun sína um málefni fyrrverandi innanríkisráðherra, þ.m.t. um þau samskipti við lögreglustjórann sem frumkvæðisathugunin tók til, þar til niðurstaða hennar lægi fyrir hefur umboðsmaður sent nefndinni afrit af álitinu. Það er einnig gert til þess að upplýsa nefndina um framkvæmd tiltekinna lagaákvæða um Stjórnarráð Íslands sem sett voru sem liður í umbótum í stjórnsýslunni í kjölfar þeirra atvika sem urðu í efnahags- og fjármálum hér á landi haustið 2008. Umboðsmaður hefur því jafnframt sent nefndinni afrit af bréfi hans til forsætisráðherra þar sem nánar er fjallað um þau mál.