27. mars 2015

Athuganir á málsmeðferðartíma stjórnvalda

Árlega berast umboðsmanni margvíslegar ábendingar og kvartanir vegna tafa á afgreiðslu mála hjá stjórnvöldum. Árið 2014 voru kvartanir yfir töfum um 21% innkominna mála og fjöldi slíkra mála frá upphafi starfsemi embættisins er kominn á annað þúsund.


Þegar kvörtun yfir töfum á afgreiðslu tiltekins stjórnsýslumáls berst umboðsmanni er fyrst lagt mat á það hvort tafir á meðferð málsins séu orðnar slíkar að tilefni sé til afskipta umboðsmanns af því. Við það mat er litið til atriða eins og efnis málsins, svigrúms sem stjórnvaldið nýtur vegna fjölda erinda sem því berast og viðeigandi lagaákvæða um málsmeðferðartíma. Þá er almennt talið eðlilegt að viðkomandi aðili hafi reynt að ítreka erindið sjálfur áður en hann leitar til umboðsmanns. Ef hann hefur gert það og töluvert er frá því að erindi var sent er alla jafna óskað eftir því að stjórnvald veiti umboðsmanni upplýsingar um hvað líði meðferð máls og afgreiðslu. Ef skýringar stjórnvaldsins eru fullnægjandi lýkur málinu, stundum eru gerðar athugasemdir eða sendar ábendingar um það sem betur hefði mátt fara og ef tafir eru bundnar við það tiltekna mál sem kvörtun lýtur að verður athugun umboðsmanns oft til þess að hreyfing kemst á það að nýju.

Auk þess að kanna hvað líður úrlausn einstakra mála hefur umboðsmaður leitast við að fylgjast með því hvort uppi kunni að vera almennur eða kerfislægur vandi hjá tilteknum stjórnvöldum. Stundum kemur t.d. í ljós við athugun á kvörtun yfir töfum á afgreiðslu tiltekins máls að tafirnar eru almennar en ekki bundnar við mál tiltekinna einstaklinga. Það getur orðið til þess að umboðsmaður óskar eftir upplýsingum um almennan málsmeðferðartíma hjá stjórnvaldi, verklag eða innra eftirlit sem á að tryggja að mál séu afgreidd eins skjótt og unnt er. Slíkt eftirlit umboðsmanns miðar einkum að því að sjá hvað veldur vandanum og hvernig megi bæta úr honum. Áhersla hefur verið lögð á tilvik þar sem málsmeðferðartími virðist talsvert umfram lögbundin eða viðhlítandi tímamörk og málaflokka sem varða mikilvæga hagsmuni.

Athugunum á almennum málshraða stjórnvalds getur lokið með niðurstöðu um að málshraði sé óviðunandi og tilmælum um að gera úrbætur á málsmeðferð. Í svörum við fyrirspurnum umboðsmanns um almennan málshraða kemur hins vegar oft í ljós að viðkomandi stjórnvald er meðvitað um þann vanda sem uppi er og hefur þegar ákveðið að grípa til tiltekinna ráðstafana til að bæta málsmeðferðartímann. Þá hefur þeirri starfsvenju verið fylgt að veita stjórnvaldinu hæfilegt svigrúm til að ráðast í fyrirhugaðar breytingar eða endurskoðun á fyrirkomulagi stjórnsýslu sinnar. Í því felst að umboðsmaður bíður með að ljúka athugun sinni á málinu og fylgist með því hvort það takist að ráða bót á þeim vanda sem uppi er með því að afla upplýsinga um stöðu mála að tilteknum tíma liðnum.

Þegar tafir á málsmeðferð stjórnvalds eru almennar og ráðstafanir stjórnvalds til að bæta málsmeðferðartíma skila ekki árangri hefur umboðsmaður gjarnan lagt athuganir sínar í þann farveg að kanna hvort þeim ráðherra sem fer með yfirstjórn viðkomandi málaflokks sé staða mála ljós og hvort hann hafi þá gripið til viðhlítandi ráðstafana að áliti umboðsmanns til að ná fram úrbótum, s.s. með því að gera þær ráðstafanir sem eru á valdsviði hans til að tryggja stjórnvaldinu viðunandi starfsskilyrði. Þegar tafir í tilteknum málaflokki eru almennar hefur umboðsmaður jafnframt í auknum mæli bent einstaklingum sem leita til hans vegna þeirra mála á að þegar afgreiðsla máls dregst óhæfilega sé heimilt að kæra það til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til, sem í mörgum tilvikum er þá ráðuneyti þess ráðherra sem fer með yfirstjórn málaflokks.

Nýlegar athuganir og fyrirspurnir umboðsmanns af þessum toga hafa m.a. beinst að afgreiðslutíma fangelsismálastofnunar og innanríkisráðuneytisins á erindum og málum fanga, afgreiðslutíma Sjúkratrygginga Íslands á umsóknum um greiðslu örorkubóta, málsmeðferðartímatíma úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, málsmeðferðartíma úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála og úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og málsmeðferðartíma í málum hælisleitenda.

Afgreiðslutími Sjúkratrygginga Íslands á umsóknum um greiðslu örorkubóta
Á árunum 2011 og 2012 bárust umboðsmanni kvartanir yfir afgreiðslutíma Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) á umsóknum um greiðslu örorkubóta. Það, ásamt upplýsingum sem komu fram í bréfaskiptum við stofnunina, varð til þess að umboðsmaður tók málefnið til athugunar að eigin frumkvæði árið 2012. Í samskiptum sínum við umboðsmann lýstu SÍ fyrisaerrhuguðum aðgerðum til að ráða bóta á vandanum. Umboðsmaður ákvað því að bíða með afgreiðslu sína á málinu. Árið 2014 var á ný óskað eftir upplýsingum um stöðu mála. Að fengnum þeim upplýsingum taldi umboðsmaður almennan afgreiðslutíma stofnunarinnar í samræmi við þau sjónarmið sem liggja til grundvallar málshraðareglu stjórnsýslulaga og lét málið niður falla.

Bréf umboðsmanns til Sjúkratrygginga Íslands 30.12.2014. (pdf, 149 kB)

Málsmeðferðartími úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða
Á árunum 2010 og 2011 veitti umboðsmaður því athygli við athugun á kvörtunum og ábendingum sem honum bárust vegna úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða (ÚAV) að nefndin fór oft fram úr þeim málsmeðferðartíma sem á er byggt lögum um atvinnuleysistryggingar. Eftir bréfaskipti við nefndina og félags- og tryggingaálaráðuneytið var ákveðið að taka málefnið til formlegrar athugunar. Í bréfaskiptum við umboðsmann á árunum 2011 og 2012 lýsti velferðarráðuneytið aðgerðum sem gripið hafði verið til til að bæta úr vandanum. Umboðsmaður ákvað því að bíða með afgreiðslu sína á málinu. Árið 2014 var á ný óskað eftir upplýsingum um stöðu mála. Að fengnum þeim upplýsingum tilkynnti umboðsmaður velferðarráðuneytinu að hann teldi ekki unnt að líta svo á að almennur málsmeðferðartími ÚAV væri í samræmi við þau sjónarmið sem liggja til grundvallar málshraðareglu stjórnsýslulaga og sérreglu laga um atvinnuleysistryggingar. Í ljósi þess að gripið hefur verið til frekari ráðstafana til að stytta málsmeðferðartímann og félags- og húsnæðismálaráðherra hefur jafnframt lagt fram frumvarp til laga um úrskurðarnefnd velferðarmála sem ráðuneytið væntir að muni leiða til styttri málsmeðferðartíma ákvað umboðsmaður þó að aðhafast ekki frekar að sinni heldur fylgjast almennt með málshraða nefndarinnar í störfum sínum og taka málefnið til frekari athugunar ef hann teldi ástæðu til. Hann tók jafnframt fram að hann vænti þess að ráðuneytið myndi fylgjast áfram með stöðu mála hjá ÚAV og leitast við að tryggja henni fullnægjandi forsendur til að mál verði almennt afgreidd innan innan þeirra æskilegu tímamarka sem Alþingi hefur sett sem viðmiðun. Ef frumvarp til laga um úrskurðarnefnd velferðarmála hlyti ekki afgreiðslu eða samþykki vænti hann þess að annarra leiða yrði leitað til að tryggja viðunandi málsmeðferðartíma hjá nefndinni.

Bréf umboðsmanns til félags- og húsnæðismálaráðherra 17.10.2014. (pdf, 151,48 kB)

Málsmeðferðartími úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála og úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála
Árið 2014 óskaði umboðsmaður eftir upplýsingum og skýringum frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu vegna málsmeðferðartíma úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála (ÚSB) og úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála (ÚUA). Tildrög bréfaskiptanna voru kvartanir sem umboðsmanni höfðu borist þar að lútandi og upplýsingar frá nefndinni sjálfri um að tafir á afgreiðslu mætti rekja til mikils málafjölda og fækkunar stöðugilda undanfarin ár. Að bréfaskiptum loknum tilkynnti umboðsmaður ráðuneytinu um að hann teldi ekki unnt að líta svo á að almennur málsmeðferðartími ÚSB væri í samræmi við þau sjónarmið sem liggja til grundvallar málshraðareglu 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga og þeim sérstöku lagaákvæðum sem hafa gilt um málshraða þessarar nefndar. Miðað við þær upplýsingar sem lægju fyrir á heimasíðu nefndarinnar yrði raunar að telja að hann væri algjörlega óviðunandi. Þá teldi hann að einnig væri uppi ákveðinn vandi í störfum ÚUA vegna málshraða sem þyrfti að ráða bót á. Þar sem fyrir lá að ráðuneytið hugðist grípa til tiltekinna ráðstafana taldi umboðsmaður ekki tilefni til frekari afskipta af sinni hálfu en tók fram að hann myndi fylgjast áfram með málshraða nefndanna í störfum sínum og taka málefnið til frekari athugunar ef hann teldi ástæðu til. Hann vænti þess að ráðuneytið myndi fylgjast áfram með stöðu mála hjá nefndunum og leitast við að tryggja þeim fullnægjandi forsendur til að mál yrðu almennt afgreidd innan innan þeirra æskilegu tímamarka sem Alþingi hefði sett sem viðmiðun. Yrði ekki af þeim fyrirætlunum sem ráðuneytið lýsti í bréfaskiptum við umboðsmann til að ráða bót á vandanum vænti umboðsmaður þess jafnframt að annarra leiða yrði leitað til að tryggja viðunandi málsmeðferðartíma hjá nefndunum.

Bréf UA til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins 24.11.2014. (pdf, 144,66 kB)

Málsmeðferðtími í málum hælisleitenda
Árið 2013 ákvað settur umboðsmaður Alþingis, í tilefni af kvörtunum yfir afgreiðslutíma í málum hælisleitenda, að fylgjast með framvindu tímabundins átaks innanríkisráðuneytisins sem ætlað var að stytta málsmeðferðartíma hælisumsókna og tryggja búsetu og aðbúnað hælisleitenda. Hann óskaði þess því að ráðuneytið upplýsti sig um framvindu átaksins og að honum yrðu jafnframt veittar almennar upplýsingar um stöðu viðkomandi málaflokks eftir því sem ráðuneytið teldi tilefni til. Svör innanríkisráðuneytisins bárust 21. janúar 2015. Ákvörðun um framhald málsins af hálfu umboðsmanns verður tekin á næstunni.

Bréf UA til innanríkisráðuneytisins 23.3.2015 (pdf, 45,95 kB)
Bréf UA til kærunefndar útlendingamála 23.3.2015 (pdf, 44,08 kB)

Afgreiðslutími á erindum og málum fanga
Í bréfaskiptum sínum við fangelsismálastofnun og innanríkisráðuneytið um afgreiðslutíma á erindum og málum fanga tók umboðsmaður fram að í hlut ættu frelsissviptir einstaklingur og það kynni að hafa veruleg áhrif á hagsmuni þeirra að sem fyrst væri svarað til um og eftir atvikum skorið úr um hver væru réttindi þeirra í samskiptum við fangelsisyfirvöld. Þá yrði almennt að gera ráð fyrir að fangar hefðu alla jafna ekki sömu tök á að standa að málarekstri hjá stjórnvöldum og fylgja málum sínum eftir og aðrir borgarar.

Að fengnum upplýsingum um reglur fangelsismálastofnunar um málshraða og svör við tilteknum erindum Afstöðu, félags fanga, benti umboðsmaður stofnuninni á að leitast við að svara erindum í samræmi við þau viðmið sem birtast í reglunum eða að öðrum kosti upplýsa sendandann um það ef afgreiðsla þess dregst. Að fengnum sambærilegum upplýsingum frá innanríkisráðuneytinu kom umboðsmaður sömu ábendingu á framfæri við ráðuneytið en minnti auk þess á mikilvægi þess að kanna strax í upphafi hvort mál væri þess eðlis að það skyldi framsent fangelsismálastofnun til afgreiðslu á lægra stjórnsýslustigi eða umsagnar vegna meðferðar ráðuneytisins á málinu. Í ljósi þess að afgreiðsla nokkurra mála fanga sem umboðsmaður hafði til skoðunar tók nokkra mánuði óskaði umboðsmaður jafnframt eftir því að fyrir 15. mars 2015 yrðu sér veittar upplýsingar um hvernig fylgst er með því að farið sé að viðmiðum um málshraða. Beiðnin er sett fram til þess að unnt sé að meta hvort tilefni sé til að taka málefnið til athugunar að eigin frumkvæði umboðsmanns.

Bréf UA til innanríkisráðuneytisins 30.1.2015. (39,56 kB)