22. maí 2015

Alþingi og breytingar á lögbundnum ríkisstofnunum

Umboðsmaður Alþingis hefur lokið athugun á kvörtun þar sem gerðar voru athugasemdir við að unnið væri að breytingum á skipulagi og starfi Námsgagnastofnunar og Námsmatsstofnunar og undirbúningi að stofnun nýrrar ríkisstofnunar, Menntamálastofnunar, þrátt fyrir að Alþingi hefði ekki tekið afstöðu til hugsanlegra lagabreytinga um starfsemi þessara stofnana og þar með verkefna þeirra og réttarstöðu starfsmanna.

Kvörtunin  var frá starfsmanni Námsgagnastofnunar sem lýsti því að þegar væri unnið að breytingum á skipulagi og starfsemi stofnananna tveggja sem tækju mið af því að starfsemi þeirra og ákveðin verkefni frá menntamálaráðuneytinu yrðu færð í  Menntamálastofnun. Þannig hefði sérstakur verkefnastjóri verið ráðinn til að vinna að málinu, störf og starfsmenn hefðu verið fluttir úr ráðuneytinu til Námsmatsstofnunar og unnið væri að undirbúningi flutnings þeirrar stofnunar í sama húsnæði og nú hýsti Námsgagnastofnun, þ.e. frá Reykjavík til Kópavogs. Þá hefði nýr forstöðumaður Námsmatsstofnunar einnig verið settur forstöðumaður Námsgagnastofnunar en starfslokasamningur gerður við forstöðumann þeirrar stofnunar. Í auglýsingu á starfi forstöðumanns Námsmatsstofnunar hefði þá þegar komið fram að hinum nýjum forstöðumanni væri ætlað að verða forstjóri Menntamálastofnunar þegar hún hefði verið stofnuð. Umrædd kvörtun barst umboðsmanni í nóvember sl. en frumvarp um Menntamálastofnun var lagt fram á Alþingi 9. desember sl. og er nú til meðferðar í þinginu. Þar eru m.a. lagðar til breytingar á núgildandi lögum um skipulag og stjórn Námsgagnastofnunar og Námsmatsstofnunar og mælt fyrir um flutning verkefna þeirra, mögulega einnig  tiltekinna verkefna frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu og hlutaðeigandi starfsmanna til hinnar nýju stofnunar.

Umboðsmaður hefur nú tilkynnt starfsmanninum að hann fái ekki séð að á þessu stigi hafi verið teknar ákvarðanir sem raskað hafi réttindum eða stöðu hans með þeim hætti að tilefni sé til frekari athugunar á málinu á þeim grundvelli. Hins vegar varð athugun umboðsmanns á málinu honum tilefni til þess að senda mennta- og menningarmálaráðherra bréf 19. maí sl. Þar kemur fram að af þeim gögnum sem umboðsmaður hefur fengið afhent verði ráðið að starfsemi, skipulag og húsnæðismál Námsmatsstofnunar og Námsgagnastofnunar, undir stjórn sameiginlegs forstöðumanns, taki nú þegar að ýmsu leyti mið af hinni áformuðu sameiningu stofnananna og starfsemi fyrirhugaðrar Menntamálastofnunar þrátt fyrir að lagafrumvarp um þá breytingu og þar með lögbundin verkefni þessara stofnana hafi ekki hlotið samþykki Alþingis. Af þessu tilefni hefur umboðsmaður óskað eftir svörum ráðherra við tilteknum spurningum þar sem tekið er fram að þær séu settar fram til þess að umboðsmaður geti tekið afstöðu til þess hvort tilefni sé til þess að fjalla um þau atriði sem um er spurt að eigin frumkvæði samkvæmt heimild í 5. gr. laga nr. 85/1997 eða í tengslum við önnur mál sem umboðsmaður er með til athugunar.

Í lok bréfs umboðsmanns til mennta- og menningarmálaráðherra segir: „Þau verkefni sem Námsgagnastofnun og Námsmatsstofnun fara með lögum samkvæmt og framkvæmd þeirra getur haft verulega þýðingu fyrir þá nemendur sem í hlut eiga og forsjáraðila þeirra sem og staðbundin yfirvöld skólamála. Hér skiptir því máli að Alþingi fái í umboði borgaranna fullnægjandi tækifæri til þess að taka afstöðu til þess á hvern veg það kýs að breyta núgildandi lögum áður en of langt er gengið í að undirbúa og framkvæma þann vilja stjórnvalda sem lýsir sér nú í fyrirliggjandi lagafrumvarpi.“

Bréf umboðsmanns Alþingis til mennta- og menningarmálaráðherra, dags. 19. maí 2015, má sjá hér.