18. febrúar 2016

Málsmeðferðartími í málum hælisleitenda

Umboðsmaður Alþingis hefur frá árinu 2013 verið í samskiptum við stjórnvöld vegna afgreiðslutíma í málum hælisleitenda.


Umboðsmaður Alþingis hefur frá árinu 2013 verið í samskiptum við stjórnvöld vegna afgreiðslutíma í málum hælisleitenda. Upphaflega var fylgst með framvindu tímabundins átaks innanríkisráðuneytisins sem var m.a. ætlað að stytta málsmeðferðartíma hælisumsókna. Síðar hefur verið fylgst sérstaklega með því hvernig gengið hefur að ná því markmiði ráðuneytisins að málsmeðferðartími hælisumsókna verði að meðaltali ekki lengri en 90 dagar á hvoru stjórnsýslustigi í málum sem koma til meðferðar frá og með 25. ágúst 2014.

Í bréfi innanríkisráðuneytisins til umboðsmanns 25. júní 2015 kom fram að meðalmálsmeðferðartími Útlendingastofnunar árið 2014 væri 92 dagar en 67 dagar í málum sem hafa komið inn frá og með 25. ágúst það ár. Hins vegar var þá ljóst að málsmeðferðartími kærunefndar útlendingamála, sem tók til starfa 1. janúar 2015, var talsvert lengri. Í bréfi nefndarinnar til umboðsmanns 17. apríl 2015 kom þannig fram að reikna mætti með að við árslok 2015 yrði málsmeðferðartími nálægt 200-220 dögum miðað við mál kærð eftir 1. janúar 2015 og færi vaxandi.

Að beiðni umboðsmanns bárust honum nýjar og uppfærðar upplýsingar um stöðu mála hjá kærunefnd útlendingamála 7. janúar 2016. Þar kemur m.a. fram að meðalafgreiðslutími árið 2015 í hælismálum sem hlutu efnismeðferð hafi verið 215 dagar en 232 dagar í svokölluðum „Dyflinnarmálum“, en það eru mál sem hljóta ekki efnismeðferð þar sem talið er að annað ríki beri ábyrgð á meðferð hælisumsóknar. Tekið er fram að í nýjum málum hafi afgreiðslutíminn að meðaltali verið 143 dagar í efnismeðferðarmálum en 113 dagar í Dyflinnarmálum. Þá kemur fram að reiknað sé með lækkandi málsmeðferðartíma og að ný efnismeðferðarmál sem koma inn í janúar verði afgreidd að meðaltali á 120-140 dögum og Dyflinnarmál á 75-90 dögum. Jafnframt segir að standist forsendur þeirrar áætlunar ættu markmið stjórnvalda um 90 daga máls með ferðar tíma hælismála á kærustigi að nást á seinni hluta ársins 2016. Í bréfi nefndarinnar til umboðsmanns er jafnframt gerð grein fyrir ráðstöfunum sem gripið hefur verið til til að stytta málsmeðferðartíma.

Ljóst er að markmið stjórnvalda um að málsmeðferðartími sé að jafnaði ekki lengri en 90 dagar hefur ekki enn náðst hjá kærunefnd útlendingamála. Þrátt fyrir að árangur hafi náðst í þá átt og að fyrirhugaðar séu frekari ráðstafanir í því skyni telur umboðsmaður ekki tímabært að ljúka afskiptum sínum af málefninu og hefur óskað þess að sér verði næst sendar upplýsingar um stöðu mála hjá nefndinni 1. september nk. Er þar haft í huga að málaflokkurinn er viðkvæmur, varðar verulega persónulega hagsmuni þeirra einstaklinga sem í hlut eiga og afgreiðslutími í honum hefur verið viðvarandi vandamál síðustu ár.