26. febrúar 2016

Ferðaþjónusta við fatlað fólk eldra en 67 ára

Á árinu 2015 barst umboðsmanni Alþingis ábending um að notendur ferðaþjónustu fatlaðs fólks í Reykjavík greiddu mismunandi gjald fyrir þjónustu eftir aldri, þ.e. að þeir sem hefðu náð 67 ára aldri greiddu hærra gjald. Það varð til þess að umboðsmaður óskaði eftir tilteknum upplýsingum frá Reykjavíkurborg og síðar velferðarráðuneytinu til þess að geta metið hvort tilefni væri til að taka málefnið til athugunar að eigin frumvæði.


Í reglum Reykjavíkurborgar um ferðaþjónustu fatlaðs fólks virðist gert ráð fyrir því að þjónustan sé takmörkuð við þá sem hafa notað hana áður en þeir ná 67 ára aldri en aðrir þurfi að nota akstursþjónustu eldri borgara. Samkvæmt gjaldskrá fyrir akstursþjónustu eldri borgara er gjald fyrir hverja ferð kr. 1.095 óháð fjölda ferða en gjald fyrir ferðaþjónustu fatlaðs fólks skal hins vegar miðast við hálft almennt gjald hjá Strætó bs. og er því töluvert lægra.

Samkvæmt upplýsingum sem umboðsmaður aflaði frá Reykjavíkurborg haustið 2015 er umsóknum einstaklinga eldri en 67 ára um ferðaþjónustu fatlaðs fólks synjað og þeim bent á að sækja um akstursþjónustu eldri borgara. Hins vegar kom fram að umsækjandi gæti farið fram á að umsókn yrði endurskoðuð af áfrýjunarnefnd velferðarráðs og þá væri málið skoðað og metið út frá málavöxtum. Áfrýjunarnefndin gæti veitt undanþágu og samþykkt ferðaþjónustu fatlaðs fólks þótt viðkomandi væri orðinn eldri en 67 ára.

Á meðal meginreglna stjórnsýsluréttarins eru jafnræðisreglan og meginreglan um skyldubundið mat. Jafnræðisreglan felur í sér að stjórnvöldum er skylt að gæta jafnræðis milli borgaranna og afgreiða sambærileg mál með sambærilegum hætti. Meginreglan um skyldubundið mat felur í sér að þegar löggjafinn hefur veitt stjórnvöldum mat til þess að geta tekið ákvörðun sem best hentar í hverju og einu tilviki með tilliti til allra aðstæðna er stjórnvöld óheimilt að afnema matið eða takmarka það óhóflega.

Í lögum um málefni fatlaðs fólks er mælt fyrir um að sveitarfélög skuli gefa fötluðu fólki kost á ferðaþjónustu og jafnframt að í tilteknum tilvikum eigi fatlað fólk rétt á slíkri þjónustu. Sveitarfélögum er veitt heimild til að innheimta gjald fyrir þjónustuna samkvæmt gjaldskrá en hins vegar er tekið fram að gjaldið skuli þá taka mið af gjaldi fyrir almenningssamgöngur á viðkomandi svæði.

Velferðarráðuneytið fer með málefni fatlaðs fólks og félags- og húsnæðismálaráðherra hefur eftirlit með framkvæmd laga um málefni fatlaðs fólks, þar á meðal að þjónusta, starfsemi og rekstur sveitarfélaga og annarra aðila samkvæmt lögunum sé í samræmi við markmið laganna, reglugerða og reglna settra samkvæmt þeim og að réttindi fatlaðs fólks séu virt. Í ljósi þess ritaði umboðsmaður ráðuneytinu bréf í desember 2015 þar sem hann vakti athygli á stjórnsýsluframkvæmd Reykjavíkurborgar og óskaði eftir afstöðu til þess hvort hún samrýmdist lögum. Jafnframt óskaði hann upplýsinga um hvort ráðuneytið hygðist bregðast við gagnvart Reykjavíkurborg ef það teldi framkvæmdina ekki samrýmast lögum og þá hvernig.

Í svarbréfi velferðarráðuneytisins 8. janúar 2016 kemur fram að ráðuneytið telji framkvæmdina ekki vera í samræmi við lög og að ráðuneytið muni taka málið til frekari skoðunar og óska eftir viðræðum við borgina vegna málsins áður en ákvörðun verður tekin um hvort gerðar verði tillögur að úrbótum.

Í ljósi þessara viðbragða velferðarráðuneytisins telur umboðsmaður ekki tilefni til að hefja formlega athugun að eigin frumkvæði. Hann hefur þó óskað eftir því að fá að fylgjast með því hverjar verða niðurstöður þeirra viðræðna sem ráðuneytið hyggst óska eftir við Reykjavíkurborg og hefur óskað eftir því að sér verði sendar upplýsingar um það fyrir 15. apríl 2016 og þá m.a. til þess að unnt sé að gera grein fyrir afdrifum málsins í ársskýrslu til Alþingis.