22. ágúst 2016

Athugun á meðferð umsókna um mannúðarleyfi af heilbrigðisástæðum lokið

Umboðsmaður hefur tilkynnt Útlendingastofnun að hann telji í ljósi þeirra upplýsinga sem hann hefur fengið frá stofnuninni, m.a. um breytingar á verklagi, ekki tilefni til að hefja frumkvæðisathugun á meðferð stofnunarinnar á umsóknum um mannúðarleyfi af heilbrigðisástæðum.


Umfjöllun í fjölmiðlum af flutningi 27 einstaklinga af landi brott, þar af tveggja fjölskyldna með veik börn, varð umboðsmanni tilefni til að óska eftir upplýsingum um almenna framkvæmd Útlendingastofnunar á umsóknum um mannúðarleyfi af heilsufarsástæðum einkum þar sem börn ættu í hlut. Í ljósi þeirrar vinnu sem hafði farið fram og væri yfirstandandi hjá Útlendingastofnun í málflokknum var niðurstaða umboðsmanns sú að ekki væri tilefni til að taka málið til athugunar að eigin frumkvæði að svo stöddu.

Upplýsingaöflun umboðsmanns laut að því hvaða grundvöllur væri almennt lagður af hálfu Útlendingastofnunar í framangreindum málum og hvernig undirbúningi þeirra væri háttað. Var það gert til að leggja mat á hvort tilefni væri til að hefja frumkvæðismál. Eftir að hafa farið yfir svör Útlendingastofnunar og þau gögn sem var aflað í málinu átti umboðsmaður fund með starfsmönnum stofnunarinnar þar sem farið var yfir tiltekin atriði í framkvæmd þessara mála. Í framhaldinu bárust umboðsmanni frekari svör og gögn. Af hálfu Útlendingastofnunar var bæði lýst þeim umbótum sem höfðu verið gerðar í starfsemi stofnunarinnar að undanförnu og að ráðist hefði verið í vinnu til að fastmóta verklag við úrlausn mála varðandi dvalarleyfi á grundvelli heilbrigðisástæðna.

Með hliðsjón af framangreindu var það niðurstaða umboðsmann að ekki væri tilefni til að hefja frumkvæðismál að svo stöddu. Í bréfi sínu til Útlendingastofnunar tók umboðsmaður þó fram að hann vænti þess að tekið yrði mið af þeim atriðum sem hann hefði vikið að á fundi sem hann átti með starfsmönnum stofnunarinnar og þeim almennu sjónarmiðum sem hann lýsti í bréfinu við þá vinnu sem nú væri í gangi hjá stofnuninni, m.a. við mótun verklags. Jafnframt tók hann fram að hann myndi fylgjast áfram með þessum málum og taka til frekari athugunar ef hann teldi ástæðu til.

Bréf umboðsmanns Alþingis til Útlendingastofnunar, dags. 5. ágúst 2016, er birt hér (3,81 MB).