26. september 2016

Afturköllun á ákvörðun um fullnustu vararefsingar með samfélagsþjónustu

Umboðsmaður komst að þeirri niðurstöðu að ákvörðun lögreglustjóra um að handtaka einstakling og færa hann til afplánunar vararefsingar fésektar í fangelsi hefði ekki verið heimil.


Þetta kemur fram í áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 8397/2015. Þar segir að framangreind ákvörðun lögreglustjórans hafi ekki verið heimil þar sem fyrri ákvörðun fangelsismálastofnunar um verða við umsókn hans um fullnustu vararefsingarinnar með samfélagsþjónustu hefði ekki verið afturkölluð með formlegum hætti.

Eftir að lögreglustjóri ákvað í málinu að vararefsingu fésektar skyldi beitt sótti einstaklingur um til fangelsismálastofnunar að refsingin yrði fullnustuð með samfélagsþjónustu og var fallist á umsóknina. Umboðsmaður taldi að þegar svo háttaði til kæmu réttaráhrif ákvörðunar fangelsismálastofnunar, um að vararefsing skyldi fullnustuð með samfélagsþjónustu, í ákveðnum skilningi í stað réttaráhrifa ákvörðunar lögreglustjóra og væri lögreglustjóra því ekki heimilt að öðru óbreyttu að leggja málið í þann farveg að vararefsing yrði fullnustuð með fangelsisvist. Fangelsismálastofnun yrði fyrst að afturkalla fyrri ákvörðun með formlegum hætti.

Álit umboðsmanns Alþingis í málinu er birt hér.