26. september 2016

Framganga og samskipti fangelsisyfirvalda við fanga

Umboðsmaður Alþingis hefur lokið tveimur málum sem eiga það sameiginlegt að varða almennt samskipti starfsmanna fangelsismálastofnunar við fanga.


Annað málið laut að framgöngu og ummælum starfsmanns fangelsisins Litla-Hrauni við fanga og viðbrögðum stjórnvalda við kvörtunum fangans vegna framkomu starfsmannsins. Hitt málið varðaði framgöngu forstjóra fangelsismálastofnunar í fjölmiðlum og meðferð stofnunarinnar á málum sem varða þrjá fanga sem þá voru á Kvíabryggju. Fyrra málinu lauk með áliti þar sem umboðsmaður komst að þeirri niðurstöðu að stjórnvöld hefðu ekki gætt vandaðra stjórnsýsluhátta. Síðara málinu lauk með bréfi í ljósi yfirlýsingar forstjórans til umboðsmanns í tilefni af athugun hans á málinu.

Umboðsmaður ritaði innanríkisráðherra bréf í tilefni af málunum þar sem hann kom m.a. þeirri ábendingu á framfæri að ráðuneytið yrði á varðbergi um að gætt væri að þeim reglum og sjónarmiðum sem væri nánar lýst í málunum. Umboðsmaður tók eftirfarandi fram í bréfinu:

„Ég minni á að sem frelsissviptir einstaklingar undir ákveðnu boðvaldi fangelsanna, eru fangar almennt í sérstakri stöðu gagnvart fangelsismálastofnun og starfsmönnum hennar, þ.m.t. fangavörðum. Af þessari aðstöðu leiðir að mínu áliti að þegar í hlut eiga stjórnendur [fangelsismálastofnunar] og fangelsanna þurfi ráðuneytið sérstaklega að hafa í huga þær skyldur sem á því hvíla í samræmi við yfirstjórnar- og eftirlitsheimildir þess. Kann það eftir atvikum að þurfa að bregðast við að eigin frumkvæði [...] Í þessum skyldum getur falist að ráðuneytið þurfi að ganga eftir því að brugðist sé við af hálfu [fangelsismálastofnunar] með viðeigandi hætti þegar upp koma tilvik í innra starfi hennar sem og í samskiptum við fanga. Enn fremur getur hvílt skylda á ráðuneytinu til að bregðist sjálft við ef það metur það svo að upplýsingagjöf, tilsvör og ummæli fyrirsvarsmanna stofnunarinnar í fjölmiðlum séu ekki í samræmi við þær reglur og sjónarmið sem ég hef reifað í áðurnefndu áliti og bréfum.“

Umboðsmaður beindi m.a. þeim tilmælum til innanríkisráðherra, fangelsismálastofnunar og fangelsisins Litla-Hrauni, í áliti sínu vegna fyrra málsins um framkomu og ummæla starfsmanns Litla-Hrauns, að sérstaklega yrði hugað að því að koma meðferð og úrlausn kvartana fanga vegna framgöngu og háttsemi starfsmanna fangelsanna í þeirra garð í tryggari og skilvirkari farveg en raunin varð í því máli.

Í málinu er varðaði framgöngu forstjóra fangelsismálastofnunar í fjölmiðlum kom umboðsmaður þeim ábendingum á framfæri við stofnunina að betur yrði gætt að ákveðnum atriðum.

Álit umboðsmanns í fyrra málinu er birt hér.

Bréf umboðsmanns til innanríkisráðherra, fangelsismálastofnunar og þeirra fanga sem leituðu til hans í síðari málinu er birt hér.