21. október 2016

Ráðherra hugi að rétti táknmálsnotenda

Einstaklingi sem notar íslenskt táknmál var synjað um þátttöku í inntökupróf í Leiðsöguskólann á þeim grundvelli að hann óskaði eftir að nota íslenskt táknmál.


Leiðsöguskólinn starfar innan Menntaskólans í Kópavogi og gerði þá almennu kröfu til umsækjenda að inntökupróf við skólann yrðu þreytt á því erlenda tungumáli sem nemandi hugðist notast við í námi og í kjölfarið í starfi. Skólinn synjaði umsækjandanum því um próftöku þar sem ekki var tilgreint erlent tungumál í umsókninni eins og krafa var gerð um heldur íslenskt táknmál.

Í málinu kom fram að Menntaskólinn í Kópavogi teldi veruleg vandkvæði á að bjóða upp á táknmál sem kjörmál, en hvorki íslenska né íslenskt táknmál hafi verið kjörmál í náminu. Í framhaldi af synjun skólans leitaði lögmaður umsækjanda til mennta- og menningarmálaráðuneytisins sem taldi ekki ástæðu til að gera athugasemdir við inntökuskilyrði skólans.

Félag heyrnarlausra kvartaði af þessu tilefni fyrir hönd umsækjanda til umboðsmanns Alþingis. Kvörtunin sneri að synjun skólans á umsókninni og að því að skólinn hafi ekki aflað nægilegra upplýsinga áður en ákvörðun var tekin um að bjóða umsækjandanum ekki í inntökupróf.

Í kjölfar athugunar umboðsmanns á málinu og samskipta við stjórnvöld og þann sem kvartaði ritaði umboðsmaður mennta- og menningarmálaráðherra bréf þar sem vakin var athygli á málinu og stöðu einstaklinga sem nota táknmál innan menntakerfisins.

Í bréfinu segir meðal annars að umboðsmaður telji sérstaka ástæðu til að vekja athygli ráðuneytisins á þeim vandkvæðum sem Leiðsöguskólinn hefur talið vera fyrir hendi. „Þetta geri ég með tilliti til þess að hugað verði nánar að því hvaða skyldur hvíla á íslenska ríkinu um úrlausn mála þegar einstaklingur sem notar táknmál óskar eftir að fá inngöngu í nám sem starfrækt er af hálfu ríkisins til þess að geta veitt leiðsögn á erlendu táknmáli. Ég tek það fram að áþekk staða kann að vera uppi í fleiri tilvikum þótt umgjörð og skilyrði vegna náms í Leiðsöguskólanum séu með vissum hætti sérstök,“ segir í bréfi umboðsmanns til ráðuneytisins.

Umboðsmaður benti einnig á að af þeim réttarreglum sem lýst er í bréfinu er ekki að öllu leyti skýrt hvaða skyldur hvíli á íslenska ríkinu í tilvikum sem þessum og því eðlilegt að stjórnvöld hugi að hvernig rétt sé að haga úrlausn þessara mála áður en eftirlitsaðili eins og umboðsmaður Alþingis tekur afstöðu til einstakra tilvika. Umboðsmaður lauk athugun sinni á málinu með ábendingum til stjórnvalda þar sem umsækjandinn ákvað að halda umsókn sinni um nám við skólann ekki til streitu.

Umboðsmaður vakti einnig athygli Menntaskólans í Kópavogi á því í bréfi til skólans að gæta sérstaklega að leiðbeiningarskyldu sinni þar sem ekki væri loku fyrir það skotið, miðað við framsetningu umsóknarinnar, að misskilnings hafi gætt hjá umsækjanda um á hvaða tungumáli hann gæti tekið inntökuprófið.

Mál þetta er númer 8404/2016 og bréf umboðsmanns til ráðuneytisins, Menntaskólans í Kópavogi og Félags heyrnarlausra má lesa hér.